Handbolti

Viktor og félagar enn taplausir á toppnum | Sandra fór á kostum í sigri Álaborgar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í GOG eru enn taplausir á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta.
Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í GOG eru enn taplausir á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta. EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat

Íslendingar voru í eldlínunni í fjórum leikjum danska handboltans í dag, bæði karla- og kvennamegin. Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í GOG eru enn taplausir á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar eftir eins marks sigur gegn Bjerringbro/Silkeborg og Sandra Erlingsdóttir skoraði níu mörk í stórsigri Álaborgar.

Viktor Gísli og félagar lentu undir í fyrri hálfleik gegn heimamönnum í Bjerringbro/Silkeborg, en þegar flautað var til hálfleiks var staðan 17-15, heimamönnum í vil.

Þeir snéru þó taflinu við í síðari hálfleik og unnu að lokum góðan eins marks sigur, 30-29. Eins og oft áður á tímabilinu fékk Viktor Gísli fáar mínútur í markinu, en liðið er enn á toppi deildarinnar með 39 stig af 40 mögulegum eftir 20 leiki.

Þá var Arnór Atlason, aðstoðarþjálfari Álaborgar, á sínum stað á hliðarlínunni þegar liðið vann öruggan sjö marka sigur gegn Nordsjælland, 32-25. Aron Pálmarsson er enn fjarri góðu gamni vegna meiðsla.

Álaborg situr í öðru sæti deildarinnar með 33 stig eftir 21 leik, sex stigum á eftir toppliðinu.

Í úrvalsdeild kvenna unnu Elín Jóna Þorsteinsdóttir og stöllur hennar nauman eins marks útisigur gegn Randers, 25-26, í leik þar sem Elín Jóna varði ellefu skot af þeim 34 sem hún fékk á sig.

Að lokum var Sandra Erlingsdóttir markahæsti leikmaður vallarins með níu mörk í 13 marka stórsigri Álaborgar gegn Lyngby, 32-19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×