Albert Grønbæk kom heimamönnum í AGF yfir eftir 19. mínútna leik en þegar tæpur hálftími var liðinn jöfnuðu gestirnir. Skot gestanna fór í stöngina og þaðan í Jesper Hansen, markvörð AGF, og í netið.
Nordsjælland var nálægt því að taka forystuna undir lok fyrri hálfleiks en markið var dæmt af eftir að myndbandsdómari leiksins skoðaði það betur. Leikmaður Nordsjælland var rangstæður í aðdraganda marksins og staðan því 1-1 í hálfleik.
Mikael kom AGF yfir í upphafi síðari hálfleiks og voru heimamenn yfir þangað til stundarfjórðungur lifði leiks. Þá jöfnuðu gestirnir metin í 2-2 og aðeins sex mínútum síðar kom sigurmarkið, lokatölur 2-3 og súrt tap AGF staðreynd.
Sigur hefði þýtt að AGF ætti enn góðan möguleika á að enda í efri helming deildarinnar þegar henni verður skipt upp. Þess í stað er liðið með 24 stig í 7. sæti, fimm stigum á eftir Randers þegar tvær umferðir eru eftir af hefðbundinni deildarkeppni.