Það er engin spurning um það hverjir eru blórabögglarnir fyrir óförum Paris Saint Germain í Meistaradeildinni í síðustu viku að mati stuðningsmanna félagsins.
Paris Saint Germain var að spila á heimavelli sínum Parc des Princes um helgina og það er óhætt að segja að stuðningsmenn liðsins hafi ekki verið að baki allra leikmanna franska liðsins.
Kylian Mbappé skoraði í báðum leikjunum á móti Real Madrid en vill ekki skrifa undir nýjan samning við félagið. Þegar hann var kynntur til leiks þá fögnuðu stuðningsmenn PSG gríðarlega. Þeir elska manninn sem er líklega á förum, kannski skiljanlega því hann er að skila mörkum á þessu tímabili.
Þá var var komið að hinum tveimur. Tvær af stærstu knattspyrnustjörnum heims og menn sem stuðningsmenn annara félaga í Evrópu hefur dreymt um að vera með í sínu liði.
Þegar þeir Neymar og Lionel Messi voru kynntir til leiks þá voru viðbrögðin allt allt önnur. Hér fyrir neðan má sjá hvernig kynningin á þremur stórstjörnum Parísarliðsins gekk fyrir sig í gær.
Messi og Neymar voru fengnir til félagsins til að landa loksins Meistaradeildartitlinum enda höfðu þeir báðir unnið hann með Barcelona. Niðurstaðan hefur hins vegar hver vonbrigðin á fætur öðrum, fimm tímabil með Neymar og nú líka á fyrsta tímabili liðsins með Messi innanborðs.
Tölfræðin á tímabilinu er ekki af þeirri stærðargráðu sem við erum vön að sjá hjá þeim Neymar og Messi.
Neymar og Messi eru saman með 12 mörk og 16 stoðsendingar í öllum keppnum. Neymar 5 mörk og 5 stoðsendingar í 20 leikjum og Messi 7 mörk og 11 stoðsendingar í 26 leikjum.
Mbappé er aftur á móti með 26 mörk og 17 stoðsendingar í sínum 36 leikjum og hefur því skorað fleiri mörk og lagt upp fleiri mörk en hinir tveir til samans.