Innkoma Alberts Guðmundssonar í leik Genoa og Juventus í kvöld gæti verið neistinn sem heimamenn þurftu til að halda sæti sínu í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni. Albert jafnaði metin undir lok leiks og Genoa gerði sér svo lítið fyrir og skoraði sigurmarkið í uppbótartíma.
Albert hóf leik kvöldsins á bekknum en staðan var markalaus að loknum fyrri hálfleik. Paulo Dybala kom gestunum í Juvetnus yfir í upphafi síðari hálfleiks og bjuggust flestir við að þeir myndu láta kné fylgja kviði.
Það kom fyrir ekki og á 68. mínútu var Albert sendur inn af bekknum í þeirri von um að bjarga að lágmarki stigi. Þegar sjö mínútur voru til leiksloka var vítaspyrna dæmd á heimaliðið en eftir að dómari leiksins skoðaði atvikið á skjánum á hliðarlínunni ákvað hann að ekki væri um vítaspyrnu að ræða.
Það nýttu heimamenn sér en þegar þrjár mínútur lifðu leiks jafnaði Albert metin. Nadiem Amiri renndi boltanum á Albert sem lúðraði honum í hægra hornið og staðan orðin jöfn, 1-1.
Það er svoleiðis #Albert pic.twitter.com/Ap9lLLXVe7
— Gummi Ben (@GummiBen) May 6, 2022
Þar með var dramatíkinni ekki lokið en þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma fenug heimamenn vítaspyrnu.
Fyrirliðinn Domenico Criscito fór á vítapunktinn og tryggði Genoa magnaðan 2-1 endurkomusigur. Gæti sigurinn reynst einkar dýrmætur þegar uppi er staðið.
Sem stendur er Genoa með 28 stig í 18 sæti eftir að hafa leikið 36 leiki. Í sætinu þar fyrir ofan er Salernitana með 29 stig en á leik til góða. Liðin í 18. til 20. sæti falla.
Serie A er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 kr. á mánuði. Upplýsingar um beinar útsendingar frá ítalska boltanum má finna hér.