Hinn 75 ára gamli Rushdi var stunginn margsinnis á föstudag á viðburði í New York borg í Bandaríkjunum. Hann var staddur á ráðstefnu þar sem hann var við það að halda fyrirlestur þegar ráðist var á hann.
Rushdie hlaut alvarlega áverka í árásinni, þar á meðal skaða á lifur, taugaendar í handleggi hans voru skornir og þá hlaut hann skaða á auga sömuleiðis. Talið er líklegt að hann missi augað. Þrátt fyrir þetta er Rushdie kominn úr öndunarvél og farinn að tala og segja brandara.

Nasser Kanaani talsmaður utanríkisráðuneytis Íran sagði á blaðamannafundi í morgun að írönsk yfirvöld bæru enga ábyrgð.
„Við teljum að engum öðrum sé um að kenna en Salman Rushdie og aðdáendum hans um árásina á hann,“ sagði Kanaani.
„Enginn hefur rétt á að saka Íran um neitt í þessu máli.“
Árásarmaður Rushdi, hinn 24 ára gamli Hadi Matar, var um helgina leiddur fyrir dómara þar sem hann lýsti yfir sakleysi sínu í málinu. Saksóknarar segja að Matar hafi skipulagt árásina og að hann hafi ætlað að myrða Rushdie. Hann hafi keypt sér miða á viðburðinn. Dómari úrskurðaði að Matar yrði ekki sleppt gegn tryggingu.

Rushdie hefur um árabil þurft að fara huldu höði vegna morðhótana í kjölfar þess að Ruholla Komeini, fyrrverandi æðstiklerkur Írans, gaf út svokallað „fatwa“ á hendur Rushdie í kjölfar þess að hann gaf út bókina Söngvar Satans. Það þýðir að hann varð réttdræpur með yfirlýsingu æðstaklerksins og voru þrjár milljónir dala settar til höfuðs honum.
Matar hefur ekki sagt af hverju hann framdi árásina og lögreglan hefur hingað til sagt að tilefni liggi ekki fyrir. Matar er þó sagður hafa verið dyggur stuðningsmaður Írans á samfélagsmiðlum.