Fótbolti

Mbappé efstur á blaði Forbes yfir tekjuhæstu knattspyrnumenn heims

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kylian Mbappé þarf líklega ekki að hafa áhyggjur af því að eiga ekki fyrir salti í grautinn.
Kylian Mbappé þarf líklega ekki að hafa áhyggjur af því að eiga ekki fyrir salti í grautinn. Jean Catuffe/Getty Images

Franski knattspyrnumaðurinn Kylian Mbappé trónir á toppi lista Forbes yfir tíu tekjuhæstu knattspyrnumenn heims. Þetta er í fyrsta skipti í níu ár sem hvorki Cristiano Ronaldo eða Lionel Messi eru í toppsætinu.

Forbes gerir ráð fyrir því að franski framherjinn muni þéna 128 milljónir dollara á tímabilinu, en það samsvarar tæplega 18,5 milljörðum íslenskra króna.

Tvímenningarnir Messi og Ronaldo eru þó ekki langt undan, en Forbes gerir ráð fyrir því að Messi muni þéna 120 milljónir dollara í öðru sæti listans og Ronaldo 100 milljónir í þriðja sæti.

Það eru svo Brasilíumaðurinn Neymar og Egyptinn Mohamed Salah sem fylla upp í topp fimm listann, en Neymar mun þéna um 87 milljónir dollara og Salah 53 milljónir.

Eins og áður segir er þetta í fyrsta skipti í níu ár sem hvorki Messi né Ronaldo tróna á toppi listans, en það gerðist seinast árið 2013 þegar David Beckham var tekjuhæsti leikmaður heims.

Þá má einnig benda á þá staðreynd að Norðmaðurinn Erling Braut Haaland er í fyrsta skipti á listanum yfir tíu tekjuhæstu knattspyrnumenn heims. Haaland situr í sjötta sæti listans, en hann og Mbappé eru einu leikmennirnir á listanum sem eru yngri en þrítugir. Báðir eru þeir mun yngri en það, en Mbappé verður 24 ára á árinu og Haaland er tveim árum yngri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×