Fótbolti

„Konan mín myndi líklega kalla mig fýlupúka og aula“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sarri gefur lítið fyrir hugmyndafræðina sem nefnd er eftir honum.
Sarri gefur lítið fyrir hugmyndafræðina sem nefnd er eftir honum. Nicolò Campo/LightRocket via Getty Images

Maurizio Sarri, þjálfari Lazio á Ítalíu, stýrði sínum mönnum til sterks sigurs á Atalanta um helgina en Lazio hefur hafið leiktíðina afar vel. Hann sat fyrir svörum eftir leik og var spurður út í leikstíl sinn.

Lazio er með 24 stig eftir ellefu leiki í deildinni og situr í þriðja sæti, fimm stigum frá toppliði Napoli. Liðið hefur spilað afar vel, skorað 23 mörk og aðeins fengið á sig fimm, fæst í deildinni.

Sarri hefur hlotið mikið lof fyrir fótboltann sem Lazio spilar en nálgun hans til leiksins er gjarnan kölluð Sarrismo, sem byggir á því að lið hans haldi mikið í boltann og hreyfi boltann hratt með stuttum og snörpum sendingum.

Sarri gefur lítið fyrir þessa hugmyndafræði sem nefnd er eftir honum en var spurður út í hugtakið á blaðamannafundi eftir sigurinn á Atalanta.

„Ég get ekki gefið ykkur skilgreiningu á því, en konan mín gæti það kannski. Fýlupúki, dálítill auli,“ sagði Sarri á fundinum og brosti við.

„Tiki-taka? Nei, okkar leikur snýr að hlaupum með bolta fram og til baka og svo lóðréttri leit. Okkar lið hreyfir boltann mest eftir lóðréttum leiðum í Seríu A,“

Sarri einbeitir sér nú að Evrópudeildinni en Lazio tekur á móti Elíasi Rafni Ólafssyni og félögum í Midtjylland á Ólympíuvellinum í Róm á fimmtudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×