Erlent

Hvetja þá sem hafa flúið til að halda sig erlendis út veturinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fjöldi fólks hefur flúið Úkraínu eftir að Rússar réðust inn í landið.
Fjöldi fólks hefur flúið Úkraínu eftir að Rússar réðust inn í landið. epa/Roman Pilipey

Stjórnvöld í Úkraínu hafa biðlað til þeirra Úkraínumanna sem hafa flúið land frá því að Rússar hófu innrás sína í febrúar síðastliðnum, um að snúa ekki aftur fyrr en í vor. Orkuinnviðir landsins ráði einfaldlega ekki við mannfjöldann.

Iryna Vereshchuk, aðstoðarforsætisráðherra Úkraínu, sagði Úkraínumenn þurfa að geta lifað af veturinn en Rússar hefðu markvisst unnið að því að eyðileggja orkuinnviði landsins. Vólódómír Selenskí Úkraínuforseti segir þriðjung orkuinnviðanna ónýta.

Vereshchuk sagði að þrátt fyrir að hún vildi gjarnan að landsmenn snéru aftur í vor væri mikilvægt að bíða með það þangað til, þar sem ástandið ætti enn eftir að versna. „Haldið ykkur erlendis, ef það er mögulegt,“ sagði hún.

Serhiy Kiral, aðstoðarborgarstjóri Lviv, sem er í vesturhluta Úkraínu, sagði í samtali við BBC á laugardag að Rússar einbeittu sér nú að því að eyðileggja mikilvæga innviði fyrir veturinn og færa átökin á svæði sem hefðu hingað til búið við frið.

Úkraínumenn hafa meðal annars sakað Rússa um að hafa í hyggju að sprengja upp mikilvæga stíflu og vatnsaflsvirkjun í Kherson, sem myndi hafa hörmulegar afleiðingar í för með sér fyrir íbúa í Kherson og á Krímskaga.

Rússar segja árásir á orkuinnviði í Úkráinu hefndaraðgerðir fyrir árás á brú sem tengir Krímskaga og meginland Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×