Fótbolti

Alfons mætir liðinu sem sló Víkinga út

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfons Sampsted í leik með Bodö/Glimt.
Alfons Sampsted í leik með Bodö/Glimt. EPA-EFE/Mats Torbergsen

Alfons Sampsted og félagar í norska félaginu Bodö/Glimt lentu á móti góðkunningjum Víkings þegar dregið var í umspil Sambandsdeildarinnar í höfuðstöðvum UEFA í dag.

Bodö/Glimt dróst á móti Lech Poznan en liðið sem hefur betur í tveimur leikjum kemst í sextán liða úrslitin þar sem bíða félögin sem unnu sína riðla.

Lech Poznan sló Víking út úr Sambandsdeildinni í sumar eftir mikla spennu og framlengdan seinni leik.  Víkingur vann fyrri leikinn 1-0 í Víkinni en sá seinni endaði 4-1 eftir að staðan var 2-1 fyrir pólska liðið eftir venjulegan leiktíma.

Poznan liðið komst síðan í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar með því að slá út F91 Dudelange frá Lúxemborg.

Í þessu umspili mættust annars vegar lið sem urðu í öðru sæti í sínum riðli í Sambandsdeildinni og hins vegar lið sem endaði í þriðja sæti í sínum riðli í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Bodö/Glimt varð í þriðja sæti í sínum riðli í Evrópudeildinni á eftir Arsenal og PSV Eindhoven.

  • Umspilsleikirnir um sæti í sextán liða úrslitum Sambandsdeildarinnar:
  • Qarabag - Gent
  • Trabzonspor - Basel
  • Lazio - CFR Cluj
  • Bodö/Glimt - Lech Poznan
  • Braga - Fiorentina
  • AEK Larnaca - Dnipro-1
  • Sheriff Tiraspol - Partizan
  • Ludogorets Razgrad - Anderlecht



Fleiri fréttir

Sjá meira


×