Fótbolti

Stelpurnar mæta HM-liði Filippseyja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir verður vonandi með íslenska liðinu á mótinu.
Sveindís Jane Jónsdóttir verður vonandi með íslenska liðinu á mótinu. Vísir/Vilhelm

Fyrsta opinbera verkefni kvennalandsliðsins í fótbolta á nýju ári er að taka þátt í Pinatar bikarnum en mótið fer fram á Spáni dagana 13. til 21. febrúar næstkomandi.

Algarve bikarinn fer ekki fram á næsta ári þar sem portúgalska landsliðið tekur þátt í aukaumspili um laust sæti á HM eftir að hafa skilið íslensku stelpurnar eftir í umspili Evrópu.

Íslenska landsliðið komst því ekki á HM næsta sumar en fram undan er næsta undankeppni Evróumótsins.

Pinatar bikarinn verður fyrsta skrefið í að undirbúa liðið fyrir hana. KSÍ segir frá staðfestri þátttöku íslenska liðsins á heimasíðu sinni.

Um er að ræða fjögurra liða mót, en einnig taka Skotland, Wales og Filippseyjar þátt í því. Filippseyjar er eina þátttökuþjóðin á mótinu sem verður á HM næsta sumar en heimsmeistaramótið fer fram í Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

Þetta er í annað sinn sem Ísland tekur þátt í Pinatar bikarnum, fyrra skiptið var árið 2020 þegar liðið mætti Skotlandi, Úkraínu og Norður Írlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×