Hinn 25 ára gamli Kristján Örn var hluti af íslenska landsliðshópnum sem fór á HM í Svíþjóð í janúar. Má segja að hann hafi nýtt mínútur sínar vel þegar hann fékk að spila og vakti það í raun athygli að hann hafi ekki spilað meira en raun bar vitni.
Eftir fína frammistöðu í Svíþjóð hélt Donni aftur til Frakklands þar sem hann leikur með PAUC í frönsku úrvalsdeildinni. Þar hefur Donni einnig spilað vel og er með markahærri mönnum deildarinnar.
Ásamt því að sitja í 7. sæti frönsku deildarinnar þá er PAUC í Evrópudeildinni. Þar er liðið í sama riðli og Íslandsmeistarar Vals. Liðin mætast á Hlíðarenda annað kvöld í leik sem gæti skipt skorið úr um hvort liðið fer áfram og hvort situr eftir.
Arnar Daði Arnarsson, einn af sérfræðingum Seinni bylgjunnar, greindi frá því á Twitter-síðu sinni fyrir skemmstu að líklega verði Donni með PAUC þar sem hann hafi æft með liðinu í dag.
Skjótt skipast veður í lofti. Kristján Örn Kristjánsson, Donni mættur aftur til leiks á æfingu með PAUC eftir kulnun & það lítur allt út fyrir hann verði með liðinu annað kvöld gegn Val. Nú er bara að fylla Origo á morgun. Úrslitaleikur. Einar. https://t.co/qCC4Q33dWY #Handkastið pic.twitter.com/EoHW76BzTj
— Arnar Daði (@arnardadi) February 20, 2023
Reikna má með hörkuleik að Hlíðarenda á morgun en liðin sem þar mætast sitja í 3. og 4. sæti B-riðils Evrópudeildarinnar. Valur er með sjö stig á meðan Donni og félagar eru með sex stig.
Leikurinn er í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport og hefst útsending klukkan 19.15.