Erlent

For­seti Cop28 sakaður um „græn­þvott“ á Wiki­pedia

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Margir hafa efasemdir um ágæti þess að útnefna olíuforstjóra sem forseta loftslagsráðstefnu.
Margir hafa efasemdir um ágæti þess að útnefna olíuforstjóra sem forseta loftslagsráðstefnu. epa/Christian Marquardt

Sultan Al Jaber, forseti loftslagsráðstefnunnar Cop28, hefur verið sakaður um að „grænþvo“ upplýsingar um sjálfan sig á Wikipedia, meðal annars síður þar sem fjallað er um störf hans sem framkvæmdastjóri Abu Dhabi National Oil Company (ADNOC).

Guardian greinir frá því að teymi á vegum Al Jaber hafi meðal annars fengið inn tilvitnun á Wikipedia-síðu Al Jaber og Cop28 þar sem segir að Al Jaber sé „nákvæmlega þess konar bandamaður sem loftslagshreyfinginn þurfi á að halda“.

Þá lagði teymið til þá breytingu að fjarlægð yrði málsgrein þar sem komið var inn á olíuleiðslusamning sem Al Jabar undirritaði árið 2019.

Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa verið gagnrýnd fyrir að útefna Al Jaber sem forseta Cop28. Hann er nú ráðherra iðnaðar og tækninýjunga en starfaði áður, eins og getið er hér að ofan, innan olíugeirans.

Fjöldi þingmanna í Bandaríkjunum og Evrópu hefur kallað eftir því að hann verði fjarlægður úr stöðu forseta en hann hefur hins vegar notið stuðnings manna á borð við John Kerry, sérlegs sendifulltrúa Bandaríkjaforseta í loftslagsmálum, og Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta Íslands.

Al Jaber á sæti í heiðursráði Arctic Circle.

Cop28 fer fram í Dubai frá 30. nóvember til 12. desember næstkomandi.

Hér má finna ítarlega umfjöllun Guardian um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×