Fótbolti

Hundrað prósent líkur á að Portúgal fari á EM eftir sigurinn í Reykjavík

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo átti afar erfitt uppdráttar gegn þeim Sverri Inga Ingasyni og Guðlaugi Victori Pálssyni í gærkvöld en skoraði að lokum markið sem tryggði Portúgal sigur.
Cristiano Ronaldo átti afar erfitt uppdráttar gegn þeim Sverri Inga Ingasyni og Guðlaugi Victori Pálssyni í gærkvöld en skoraði að lokum markið sem tryggði Portúgal sigur. VÍSIR/VILHELM

Sigurmark Cristiano Ronaldo gegn Íslandi á Laugardalsvelli í gærkvöld gerir það að verkum að talið er útilokað annað en að Portúgal komist upp úr J-riðli og beint á EM í fótbolta, sem fram fer í Þýskalandi næsta sumar.

Portúgal hefur nú unnið alla fjóra leiki sína í undankeppninni til þessa og er því með 12 stig á toppi J-riðils. Slóvakía er með 10 stig, Lúxemborg 7, Ísland og Bosnía 3 hvort, og Liechtenstein 0. Tvö efstu liðin komast beint á EM.

Tölfræðiveitan Gracenote hefur nú reiknað út líkurnar fyrir öll liðin í undankeppninni á því að komast í lokakeppni EM, nú þegar fjórar umferðir af tíu eru búnar.

Portúgal er þar líklegast með 99,8% líkur á að komast á EM. Frakkar eru sömuleiðis alveg við hundrað prósentin, með 99,7% líkur á að komast upp úr B-riðli eftir að hafa unnið alla fjóra leiki sína.

Afar ólíklegt er að Ísland komist áfram úr J-riðli en Slóvakía er sjö stigum ofar og nú með 72% líkur á að fylgja Portúgal upp úr riðlinum.

Átta önnur lið en Portúgal eru með að minnsta kosti 90% líkur á að komast beint á EM. Það eru England (99%), Skotland (98%), Sviss (98%), Belgía (97%), Serbía (96%), Króatía (95%), Tékkland (93%) og Ungverjaland (90%).

Fjögur lið til viðbótar eru með yfir 80% líkur en það eru Spánn (89%), Austurríki (89%), Tyrkland (87%) og Danmörk (81%).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×