Fótbolti

„Þetta var ekki okkar besti fótbolta leikur.“

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Jón Þórir Sveinsson (með derhúfuna) var ekki sáttur í leikslok.
Jón Þórir Sveinsson (með derhúfuna) var ekki sáttur í leikslok. Vísir/Diego

Jón Þórir Sveinsson, þjálfari Fram, var sáttur með 3-2 sigur á móti HK í Bestu-deild karla í fótbolta í kvöld. Leikurinn fór hægt af stað en þegar fimm mínútur voru til loka fyrri hálfleiks fengu Framarar víti sem hleypti lífi í leikinn.

„Þetta var erfiður leikur og það var hart tekist á. Leikur sem að bar einhver einkenni veðursins sem var í dag, svolítill vindur og menn áttu kannski erfitt með að hemja boltann og spila honum á jörðinni. En góður sigur, ég er mjög ánægður.“

HK-ingar virtust vera með ágætis tak á leiknum fram á 40. mínútu en þá fengu Framarar vítaspyrnu og tvíefldust. Þrátt fyrir að HK hafi náð að minnka muninn gáfu heimamenn ekkert eftir og sigruðu leikinn. 

„HK voru meira með boltann en skapa sér ekkert færi í fyrri hálfleiknum þannig að ég var mjög sáttur við stöðuna. Við ætluðum að fara svona inn í leikinn og hann spilaðist eins og við vildum spila hann. Við ætluðum að vera lið og þjappa okkur saman. Svolítið að bæta fyrir það sem að fór úrskeiðis í síðasta leik og mér fannst við gera það í dag. Menn voru tilbúnir að hlaupa og berjast, ef að þú gerir það þá áttu alltaf séns í hvaða leik sem er. En þetta var ekki okkar besti fótbolta leikur.“

Fram sækir ÍBV heim í næstu umferð og vill Jón sjá þá tilbúna að slást og berjast. 

„Ég vil sjá þá eins og í kvöld, tilbúnir að slást og berjast. Þetta eru erfiðir leikir og ÍBV er náttúrulega með hörkulið og erfiðir heim að sækja. Við verðum að vera tilbúnir í það og tilbúnir að hlaupa og vinna því öðruvísi færðu ekki neitt út úr leikjum nema að þú sért drullu heppinn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×