Erlent

Stefna norskum stjórnvöldum vegna nýrra olíuleyfa

Kjartan Kjartansson skrifar
Norski olíuborpallurinn Sleipnir. Leyfin sem voru veitt í gær voru bæði fyrir stækkun núverandi olíusvæða og fyrir vinnslu á nýjum svæðum í Norðursjó og Noregshafi.
Norski olíuborpallurinn Sleipnir. Leyfin sem voru veitt í gær voru bæði fyrir stækkun núverandi olíusvæða og fyrir vinnslu á nýjum svæðum í Norðursjó og Noregshafi. Vísir/EPA

Tvenn náttúruverndarsamtök segjast ætla að stefna norska ríkinu vegna ákvörðunar stjórnvalda um að gefa út nítján ný leyfi fyrir olíu- og gasvinnslu í gær. Þau saka ríkisstjórnina um að brjóta gegn stjórnarskrá og hunsa skuldbindingar sínar í mannréttindamálum með leyfunum.

Leyfin sem norska ríkisstjórnin gaf út í gær auka núverandi vinnslu á olíu og gasi í Norðursjó og Noregshafi og bæta við nýjum svæðum. Stjórnvöld sögðu leyfin meðal annars mikilvæg til þess að tryggja orkuöryggi Evrópu.

Grænfriðungar í Noregi og Náttúra og æsku, tvenn náttúruverndarsamtök, mótmæla áformunum um að framlengja framleiðslu á jarðefnaeldsneyti sem veldur loftslagsbreytingum á jörðinni um áratugi.

„Þetta er alger vanvirðing við loftslagið, vísindi og jafnvel hæstarétt okkar í því eina skyni að þóknast olíuiðnaðinum,“ sagði Frode Pleym, framkvæmdastjóri Grænfriðunga í Noregi.

Samtökin töpuðu svipuðu máli gegn ríkinu vegna leyfa sem voru veitt árið 2016 fyrir Hæstarétti Noregs árið 2020. Dómurinn sagði þá að 112. grein stjórnarskrárinnar sem á að tryggja rétt fólks til hreins umhverfis ætti aðeins við ef ríkið tæki enga ábyrgð á umhverfis- eða loftslagsmálum en sú væri ekki raunin, að því er segir í frétt AFP-fréttaveitunnar.

Núna byggja samtökin á því að stjórnvöld hafi lítið sem ekkert látið rannsaka loftslagsáhrif nýju olíusvæðanna. Stjórnvöld bregðist einnig skyldu sinni að tryggja hagsmuni barna og brjóti þannig bæði gegn stjórnarskrá Noregs og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×