„Það er náttúrulega búið að blása ansi hressilega um stjórnina núna á síðustu vikum en þau hafa náð að standa af sér þessa hluti á síðustu árum þannig það er spurning hvort þetta bíti nokkuð á,“ segir Eva og að málin séu þó þess eðlis að þau ættu að gera það.
„Það sem mér finnst líka áhugavert í þessu er að við erum að horfa á ólíka flokka. Vinstri græn koma að hvalveiðimálinu á meðan Sjálfstæðisflokkurinn sé frekar bendlaður við Lindarhvol og Íslandsbankamálið. Það vegur upp á móti hvoru öðru. Það er erfitt að skammast í eitthvað mál hjá öðrum ef hann bendir svo á annað mál hjá þér,“ segir Eva og að það komi líklega að þeirri ákvörðun þeirra að halda samstarfinu áfram.
Hvað varðar ákall stjórnarandstöðu um að þing komi saman segir Eva Marín að það sé ekki endilega þörf á því. Það væri táknrænt að verða við beiðninni núna um til dæmis rannsóknarnefnd en að það myndi líklega ekki mikið gerast í slíkri vinnu fyrr en í haust.
„Það er mjög sjaldgæft að þing komi saman þó það séu átakamál,“ segir Eva og að þótt svo að ásýndin sé kannski sú að ekkert sé að gerast geti fólk samt verið að tala saman og vinna að málunum.
„Þetta ásýnd blekkir stundum. Það getur verið samtal í gangi bak við.“
Hún segir málin þó mjög alvarleg og að það sé þörf á skýrari svörum en óljóst sé hvort að þau fáist á þingi núna.
„Það þarf ekkert að draga úr því að þetta eru alvarleg mál og það eru að koma þarna fram þættir sem skipta almenning máli. En hvort að það sé nóg til að draga út samstarfinu er ekkert endilega víst og ekki endilega samasemmerki þar á milli.“
Hún segir eðlilegt að stjórnarandstaðan óski þess að þing komi saman og að þau vilji gera mikið úr málinu núna.
„Ég veit ekki hvort þingið svarar samt einhverju núna. Það væri verið að setja á svið umræðu í þingsal og hvort hún sé það sem við þurfum núna er ekki víst. Ég væri meira til í að fá skýringar og greiningar á því sem hefur gerst og meiri dýpt á málið.“
Hún segir augljóst að almenningur eigi heimtingu á skýrari svörum og útskýringum á ákvarðanatöku innan ríkisstjórnarinnar.
„Það þarf að ræða þessi mál betur og almenningur á heimtingu á skýrari svörum. Bæði ákvarðanatöku í hvalveiðimálinu, ferlinu sem fer þar í gang og hvernig ákvörðunin er tekin, og svo hin málin, að það sé kafað betur ofan í það hvað var þar í gangi.“
Hvar brotalamirnar liggja?
„Það augljóst að þarna eru brotalamir … við erum alltaf að reyna að læra af reynslunni þótt að það gangi misjafnlega vel hjá okkur þá er það líka þannig að við þurfum að fá greiningar á hvernig svona ákvarðanir eru teknar svo við getum sett upp girðingar, lært af reynslunni og tekið betri ákvarðanir í framtíðinni.“