Fótbolti

Åge hefur trú á Ís­landi í um­spilinu: „Í fót­bolta er ekkert ó­mögu­legt“

Aron Guðmundsson skrifar
Åge Hareide, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta
Åge Hareide, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta Vísir/Egill

Age Hareide, lands­liðs­þjálfari ís­lenska karla­lands­liðsins í fót­bolta lýst vel á mögu­leika liðsins í um­spili fyrir EM. Ís­land mætir Ísrael í undan­úr­slitum um­spilsins og hefur Hareide trú á því að liðið geti tryggt sér sæti á EM. Hann vonast til að allir bestu og reyndustu leik­menn Ís­lands verði klárir í bar­áttuna í mars.

Dregið var í um­spilið í morgun. Ís­land mun að öllum líkindum mæta Ísrael á hlut­lausum velli þar sem ekki hefur reynst öruggt að spila heima­leiki Ísrael í Tel Aviv sökum ólgunnar fyrir botni Mið­jarðar­hafs.

Í hinum undan­úr­slita­leiknum mætast Bosnía & Herzegóvína og sigur­vegarar þessara tveggja viður­eigna mætast svo í hreinum úr­slita­leik um laust sæti á EM.

„Ísrael er and­stæðingur sem við getum staðið okkur vel gegn,“ sagði Hareide á blaða­manna­fundi í dag. „Við létum horfa á leik þeirra gegn Sviss og erum með góða inn­sýn inn í þetta lið og hvernig það spilar. Enginn af þessum leikjum er auð­veldur. Þetta er eins og bikar­leikur. Við þurfum að vera sniðugir í okkar nálgun og þolin­móðir. Koma okkur í þennan úr­slita­leik. Það sama gildir um and­stæðinginn. Þetta eru spennandi leikir og það veit enginn hvernig liðin munu líta út í mars. Þetta verður spennandi og vonandi náum við að komast á­fram.“

Hvernig mun þjálfara­t­eymi Ís­lands undir­búa liðið næstu mánuðina fram að leiknum í mars?

„Við vorum með njósnara í Búda­pest að fylgjast með Ísrael og eigum von á skýrslu frá honum. Þá munum við skoða undan­farna leiki Ísrael. Þeir eru með gæða­leik­menn innan sinna raða og við þurfum að undir­búa leik okkar gegn þeim vel.“

Þá mun Hareide nýta lands­liðs­verk­efni Ís­lands í janúar, þar sem honum standa til boða leik­menn sem spila hér heima sem og á Norður­löndunum, til þess að kanna mögu­lega kosti fyrir lands­liðið.

„Kannski finnum við leik­menn þar sem geta hjálpað okkur í mars. Eina vanda­málið er að þessir leik­menn verða ekki búnir að spila marga leik­menn í að­draganda þess verk­efnis.“

Það skipti ís­lenska lands­liðið höfuð­máli að reyndustu og bestu leik­menn þess verði heilir heilsu þegar að um­spilið fer fram.

„Styrktar­þjálfarinn okkar mun fylgjast vel með leik­mönnum í gegnum þessa mánuði. Hversu mikið þeir æfa og hvernig þeir æfa. Þá munum við vera í miklum sam­skiptum við leik­mennina sjálfa í gegnum þessa mánuði.“

Það að hafa fengið leik gegn Ísrael í B-hluta um­spilsins hafi verið betra en að mæta Wa­les í A-hlutanum líkt og hefði geta verið raunin.

„Já ég tel það. Að mæta Wa­les í Car­diff hefði verið erfiðara. Þá munum við að öllum líkindum mæta Ísrael á hlut­lausum velli. Þetta eru þó allt erfiðir leikir og við þurfum að eiga okkar bestu leiki.“

Beri Ís­land sigur úr býtum gegn Ísrael þykir lík­legast að liðið muni mæta Úkraínu í hreinum úr­slita­leik um laust sæti á EM.

„Þetta munu verða tveir mikil­vægir leikir en í fót­bolta er ekkert ó­mögu­legt. Við látum okkur hlakka til umspilsins. Úkraína er lík­legast besta liðið af þessum fjórum í B-hlutanum.

Ef við mætum þeim í úr­slita­leiknum þá mætum við erfiðum and­stæðingi. Við þurfum hins vegar að ein­blína á Ísrael og vitum hvað góð úr­slit þar geta gert fyrir okkur. Við þurfum að trúa á sjálfa okkur í þessum leik. Trúa því að við getum þetta. Ég trúi því.“

Aron Einar gífurlega mikilvægur

Þá var hann spurður út í mikilvægi þess að Aron Einar, sem meiddist eftir leikinn gegn Slóvakíu á dögunum, verði heill heilsu og byrjaður að spila reglulega í Katar fyrir verkefnið.

„Það er mjög mikilvægt. Hann er mikilvægur okkar liði, innan sem utan vallar. Þetta er leiðtogi liðsins á marga vegu. Leikmaður sem styður við alla leikmenn. Hann elskar að spila fyrir Ísland. Vonandi verður hann kominn á fullt í mars. Ég tel að hann muni finna sér lið í janúar.“

Aðspurður um markmannsstöðu liðsins, þar sem þrír markmenn hafa fengið að spreyta sig í undanförnum landsliðsverkefnum, hafði Hareide þetta að segja: 

„Hákon Rafn átti mjög góðan leik gegn Portúgal á dögunum og átti í þokkabót mjög gott og stöðugt tímabil með Elfsborg. Rúnar hefur ekki verið að spila mikið fyrir Cardiff á meðan að Elías hefur verið að gera vel í Portúgal. Hákon kom inn og stóð sig vel gegn Portúgal og þá erum við með góðan markmann í Noregi í Patrik Gunnarssyni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×