Innlent

Til­kynnti sjálfan sig fyrir ölvunar­akstur

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lítið virðist hafa verið um að vera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Lítið virðist hafa verið um að vera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Vísir/Vilhelm

Maður var handtekinn í gær fyrir ölvunarakstur. Maðurinn hafði sjálfur tilkynnt sig til lögreglu eftir að hafa áttað sig á að hann gæti ekki haldið akstri áfram sökum ölvunar og vildi ekki stofna öðrum í hættu. Manninum var sleppt að lokinni blóðsýnatöku.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu, sem nær yfir tímabilið milli klukkan fimm síðdegis í gær fram til klukkan fimm í morgun. Af henni að dæma virðast helstu verkefni lögreglu hafa snúið að akstri ökumanna undir áhrifum. 

Einn var til að mynda stöðvaður við umferðareftirlit og vaknaði grunur um að hann væri undir áhrifum fíkniefna, þar sem „meint fíkniefni“ fundust á honum. Hann var handtekinn en sleppt að lokinni blóðsýna- og skýrslutöku.

Þá var annar stöðvaður fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og án ökuréttinda. Þriðji var stöðvaður við umferðareftirlit grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þeim var báðum sleppt að lokinni blóðsýnatöku. 

Þá segir í dagbók að tilkynnt hafi verið um minniháttar umferðarslys til lögreglustöðvar 1 á Hverfisgötu en engin slys hafi orðið á fólki. Sömuleiðis tilkynnt um stuld á leikjatölvu úr félagsmiðstöð grunnskólabarna í Reykjavík og er málið í rannsókn. 

Þá var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir þar sem maður var að bera mikið magn muna um miðja nótt. Lögregla náði tali af manninum, sem er nú til rannsóknar fyrir að hafa verið að flytja meint þýfi frá nærliggjandi fyrirtækjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×