Coote var VAR-dómari í fyrri leik liðanna sem endaði með 1-1 jafntefli. Umdeildasta atvik leiksins kom í fyrri hálfleik þegar Martin Ødegaard, fyrirliði Arsenal, fékk boltann í höndina innan vítateigs.
Chris Kavanagh, dómari leiksins, dæmdi ekki vítaspyrnu og Coote var sammála því og lét Kavanagh ekki líta aftur á atvikið.
Stuðningsmenn Liverpool voru afar ósáttir við Kavanagh og Coote og Howard Webb, yfirmaður dómaramála á Englandi, viðurkenndi seinna að dómarar leiksins hefðu ekki komist að réttri niðurstöðu í umræddu atviki.
Anthony Taylor verður dómari í leiknum á Emirates á sunnudaginn en Coote verður sem fyrr segir í VAR-herberginu.
Arsenal vann 1-2 sigur á Nottingham Forest í gær og minnkaði þar með forskot Liverpool á toppi ensku úrvalsdeildarinnar niður í tvö stig. Liverpool getur endurheimt fimm stiga forystu á toppnum með sigri á Chelsea í kvöld.