Ákvörðunin verður tekin „á næstunni“ samkvæmt svari frá ráðuneyti hennar. Um fjögur þúsund manns hafa fengið mannúðarleyfi á Íslandi á grundvelli þessa ákvæðis.
Úkraínumönnum var upphaflega veitt þessi vernd árið 2022 en sú vernd var svo framlengd þann 1. febrúar í fyrra. Gildistími hennar er til 4. mars á þessu ári. Ákvörðunin var upprunalega tekin í samráði við Evrópusambandið og framlengd í fyrra í samráði við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Tilkynnt var um framlenginguna í fyrra um mánuði áður en hún tók gildi.
„Líkt og í fyrra verður sú ákvörðun tekin að höfðu samráði innanlands sem utan og birt á heimasíðu ráðuneytisins,“ segir Gunnlaugur Geirsson teymisstjóri útlendingamála í svari frá ráðuneytinu um málið.
Um fjögur þúsund manns
Árið 2022 fengu 2.316 frá Úkraínu mannúðarleyfi á Íslandi á grundvelli fjöldaflótta eða viðbótarverndar samkvæmt tölfræði Útlendingastofnunar. Frá janúar til nóvember í fyrra fengu 1.453 mannúðarleyfi vegna fjöldaflótta frá Úkraínu. Samanlagt eru það 3.769 einstaklingar.
Ekki eru aðgengileg gögn á vef Útlendingastofnunar fyrir desember í fyrra eða janúar á þessu ári en ef fjöldinn er svipaður og fyrri mánuði, um hundrað manns, má gera ráð fyrir að heildarfjöldi sé tæplega fjögur þúsund manns sem hefur fengið þessa vernd frá því að 44. ákvæði laganna var virkjað.
Umsókn verður þá tekin til meðferðar
Verði ákvæðið ekki virkjað aftur munu þessir fjögur þúsund einstaklingar þurfa að láta Útlendingastofnun vita hvort að umsókn þeirra um alþjóðlega vernd, sem hefur verið sett til hliðar vegna fjöldaflóttaverndarinnar, eigi að vera tekin fyrir til efnislegrar meðferðar.
Í 44. grein útlendingalaganna segir að þegar heimildin fellur niður, eða þegar liðin eru þrjú ár frá því að einstaklingur fékk slíka vernd fyrst, eiga yfirvöld að tilkynna umsækjanda að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði aðeins tekin til meðferðar láti hann í ljós ótvíræða ósk um það innan tiltekins frests.
Samkvæmt 44. grein útlendingalaga má endurnýja eða framlengja leyfið í allt að þrjú ár frá því að umsækjandi fékk það fyrst. Eftir það má veita fólki dvalarleyfi vegna alþjóðlegrar verndar, mannúðarsjónarmiða eða mansals en kveðið er á um það í 74. grein útlendingalaganna.
Að liðnu einu ári með slíkt leyfi er heimilt að gefa út ótímabundið dvalarleyfi enda séu skilyrðin fyrir því að halda leyfinu enn fyrir hendi og skilyrðum að öðru leyti fullnægt, samanber það sem kemur fram í 58. ákvæði laganna sem fjallar um ótímabundið dvalarleyfi.
Framlengja en þrengja skilyrði
Evrópusambandsríkin hafa framlengt þessa fjöldaflóttavernd fyrir Úkraínumenn þar til á næsta ári en í Bretlandi, sem er utan sambandsins, var verndin upprunalega veitt til þriggja ára og rennur því út á næsta ári.
Í Noregi, sem einnig er utan Evrópusambandsins, geta Úkraínumenn einnig fengið þessa sömu vernd en í janúar á þessu ári var tilkynnt, vegna mikils fjölda sem þangað hefur leitað, að Úkraínumenn með vernd eða tvöfalt ríkisfang í ríki sem Noregur metur öruggt fengju ekki vernd.
Auk þess var tilkynnt að stuðningur við Úkraínumenn sem eru komnir í eigið húsnæði yrði minnkaður og að ferðir á milli Úkraínu og Noregs yrðu takmarkaðar. Þá var einnig tilkynnt að norsk yfirvöld myndu ekki lengur greiða fyrir komu og veru gæludýra í flóttamannamiðstöðvum sínum eða móttökumiðstöðinni. Tilkynnt var um þessar breytingar í lok janúar og taka þær gildi i dag, 15. febrúar.