Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um sædreka en svo nefnist tæki sem undanfarin ár hefur verið í þróun hjá sænska nýsköpunarfyrirtækinu Minesto. Drekinn Dragon 12 var sjósettur í bænum Vestmanna í Færeyjum fyrr í mánuðinum og minnir á flugvél en er í raun sjávarfallatúrbína upp á 1,2 megavött.
Eftir að búið var að koma honum fyrir á Vestmannasundi við Straumey byrjaði hann strax að framleiða raforku inn á færeyska raforkukerfið enda ber stærsta eyja Færeyja nafn með rentu.

Tilraunir sænska fyrirtækisins við Straumey hófust fyrir einu og hálfu ári þegar minni gerð sædreka, Dragon 4, upp á 100 kílóvött, var reyndur í samstarfi við opinbert raforkufélag færeysku sveitarfélaganna, SEV. Sædrekinn virkar þannig að hann er festur við sjávarbotninn með langri taug en látinn fljóta í kafi vel undir skipaumferð, jafnvel á fimmtíu metra dýpi.
Í sjónum virkar hann eins og flugdreki og snýr sér á móti straumnum eftir því sem sjávarföllin breytast. Orka sjávarstraumsins snýr spaðanum, rétt eins og vatnsrennsli hverfli vatnsaflsvirkjunar, og raforka verður til. En ólíkt vindmyllum er sædrekinn ekki sýnilegur á yfirborði því hann er hafður á kafi í sjónum.

Svo vel hefur sædrekinn reynst að sænska fyrirtækið tilkynnti fyrir helgi að byrjað sé að undirbúa sjávarfallaorkulundi á sjö stöðum í Færeyjum með fjárfestingu upp á 400 milljónir evra, sem jafngildir um sextíu milljörðum íslenskra króna. Fáist tilskilin leyfi er gert ráð fyrir að samanlegt uppsett afl verði 200 megavött, en það samsvarar 40 prósentum af raforkuþörf Færeyinga.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Árið 2013 rituðu íslenskir og færeyskir ráðherrar undir viljayfirlýsingu um að efla samstarf frændþjóðanna á sviði orkumála þar sem meðal annars átti að kanna kosti þess að leggja raforkusæstreng milli landanna, eins og fram kom í þessari frétt: