Neytendur

Gerði ekki gott mót og dæmdur til að veita af­slátt

Jakob Bjarnar skrifar
Fá lið voru á mótinu og geta liðanna ekki mikil, aðstaða á keppnissvæði léleg, léleg dómgæsla og fjöldi valla ekki í samræmi við upplýsingabækling.
Fá lið voru á mótinu og geta liðanna ekki mikil, aðstaða á keppnissvæði léleg, léleg dómgæsla og fjöldi valla ekki í samræmi við upplýsingabækling. vísir/vilhelm

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur úrskurðað í máli þar sem kærandi kvartar undan glötuðu fótboltamóti. Sá fær afslátt sem nemur tuttugu prósentum af greiddri fjárhæð.

Úrskurðurinn er rækilega nafnhreinsaður þannig að ekki liggur fyrir hvaða fótboltamót um ræðir en kona nokkur hafði greitt ferðaþjónustufyrirtæki þátttökugjald fyrir son sinn á fótboltamót sem fara átti fram dagana 24. til 29. júlí 2023. Hún greiddi samtals 174.500 krónur fyrir ferðina en innifalið átti að vera flug, gisting, fæði, mótsgjald og rútuferðir.

Að sögn konunnar stóðst þetta fótboltamót engan veginn væntingar. Hún vísaði til þess að mótið hafi ekki verið í samræmi við það hvernig mótið hafi verið kynnt. Hún benti meðal annars bent á að:

„... fá lið hafi verið á mótinu og geta liðanna ekki mikil, aðstaða á keppnissvæði hafi verið léleg, léleg dómgæsla og fjöldi valla ekki í samræmi við upplýsingabækling. 

Þá hefur sóknaraðili bent á að samgöngur á milli hótels og keppnissvæðis hafi ekki verið góðar og að ekki hafi verið hægt að nýta sér „skutlþjónustu“ sem boðið hafi verið upp á vegna ósamræmis í tímasetningum á ferðum og leikjadagskrá.“

Varnaraðili, sem fór fram á að málið væri fellt niður, ber að greiða konunni alls 34.900 krónur til baka en hún fór fram á 70 þúsund króna endurgreiðslu. Kærunefndin telur konuna hafa nokkuð til síns máls með að mótið hafi ekki verið í samræmi við væntingar. Afsláttur er metinn hæfilegur 20 prósent af þeim gjöldum sem innt höfðu verið af hendi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×