Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafnaði í gær ályktun sem sendiherra Bandaríkjanna lagði fram um brýnt vopnahlé á Gasa. Sendiherrar bæði Rússlands og Kína beittu neitunarvaldi ríkjanna til að koma í veg fyrir að ályktunin yrði samþykkt.
Var þetta fjórða ályktunartillagan um vopnahlé á Gasa sem nær ekki í gegn, en í síðustu þrjú skipti hafa Bandaríkin beitt neitunarvaldinu. Í tillögunni fólst sex vikna vopnahlé á Gasa gegn því að gíslar í haldi Hamas yrðu látnir lausir. Ellefu af fimmtán ríkjum í ráðinu greiddu atkvæði með tillögunni.
Öryggisráðið fundar á mánudagsmorgun og þá verða greidd atkvæði um nýja vopnahlésályktun, sem kjörnir fulltrúar öryggisráðsins hafa sett saman. Til stóð að atkvæðagreiðslan færi fram í dag, en til þess að nægur tími gæfist fyrir umræður var henni frestað til mánudags.
Í afriti af ályktuninni sem Reuters hefur undir höndum kemur fram krafa um tafarlaust vopnahlé meðan á mánuði Ramadan stendur, en Ramadan hófst þann 10. mars og stendur til 9. apríl. Auk þess er krafa um að öllum gíslum Hamas verði sleppt úr haldi og neyðaraðstoð til Gasa verði meiri.
Til þess að hún verði samþykkt þurfa níu af fimmtán ríkjum öryggisráðsins að greiða atkvæði með henni, án þess að eitt fimm ríkjanna sem hafa neitunarvald greiði gegn henni. Þau ríki sem hafa neitunarvald í ráðinu eru Bandaríkin, Kína, Rússland, Frakkland og Bretland.