Upp­gjör og við­töl: HK - KA 1-2 | KA sloppið úr fallsæti eftir tvo sigra í röð

Hinrik Wöhler skrifar
Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði í kvöld.
Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði í kvöld. vísir/vilhelm

KA-menn hoppuðu upp úr fallsæti Bestu deildar karla í fótbolta eftir 2-1 sigur á HK í Kórnum í kvöld. Þetta var í fyrsta sinn í sumar sem KA liðið vinnur tvo deildarleiki í röð og um leið enduðu þeir tveggja leikja sigurgöngu HK-liðsins.

KA byrjaði að miklum krafti og Arnar Freyr Ólafsson, markvörður HK, hafði nóg að gera í markinu. Hver sóknin á fætur annarri endaði með skoti á markið en Arnar Freyr var vel á verði.

Viðar Örn Kjartansson náði að koma knettinum í markið á 20. mínútu eftir að hafa náð frákasti en var réttilega dæmdur rangstæður og markið stóð ekki.

Fyrri hálfleikurinn var algjörlega eign Akureyringa. Þeir herjuðu að marki HK en tókst ekki að brjóta ísinn. Gestirnir áttu auðvelt með að opna vörn HK en skotin voru ekki nægilega hnitmiðuð.

KA fékk fjöldann allan af föstum leikatriðum í fyrri hálfleik, til dæmis níu hornspyrnur en náðu ekki að koma knettinum yfir línuna.

Staðan var markalaus í hálfleik og gátu gestirnir farið svekktir inn til búningsherbergja að hafa ekki náð að skora.

Gestirnir náðu loks að brjóta ísinn á 51. mínútu. Hallgrímur Mar Steingrímsson tók hornspyrnu sem sveif yfir varnarmenn HK og endaði hjá Bjarna Aðalsteinssyni sem lúrði á fjærstönginni. Bjarni afgreiddi þetta snyrtilega af stuttu færi en Arnar Freyr var nálægt því að verja skotið en var aðeins of seinn til og boltinn rúllaði yfir línuna.

Heimamenn vöknuðu við markið og það kom meiri kraftur í sóknarleik HK.

KA bætti við marki á 82. mínútu þegar Ásgeir Sigurgeirsson fann Hallgrím Mar inn í vítateignum. Ásgeir gaf hnitmiðaða sendingu sem Hallgrímur afgreiddi með að klippa boltann í netið af stuttu færi.

Laglegt mark hjá Hallgrími Mar og líklegast margir sem héldu að leikurinn væri úti en heimamenn voru ekki á sama máli.

Arnþór Ari Atlason klóraði í bakkann á 92. mínútu með skalla af stuttu færi eftir góðan undirbúning frá Birni Breka Burknasyni.

Nær komust heimamenn ekki og sigraði KA með tveimur mörkum gegn einu.

Atvik leiksins

Gestirnir sluppu með skrekkinn á 95. mínútu leiksins þegar Karl Ágúst Karlsson, leikmaður HK, átti skot að marki inn í vítateig. Skotið virtist fara í höndina á Hans Viktori Guðmundssyni, leikmanni KA, en dómari leiksins var ekki á sama máli. HK-ingar voru allt annað en sáttir og var Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, sótillur út í Vilhjálm Alvar Þórarinsson.

Stjörnur og skúrkar

Heimamenn máttu þakka Arnari Frey Ólafssyni, markverði sínum, að staðan var enn markalaus í hálfleik. Arnar varði eins og berserkur í fyrri hálfleik og hélt sínum mönnum inn í leiknum.

Hallgrímur Mar var frábær í liði KA, átti hornspyrnuna sem rataði á Bjarna Aðalsteinsson í fyrsta markinu og síðan afgreiddi leikinn með laglegu marki á 82. mínútu leiksins.

Viðar Örn Kjartansson fékk loks tækifæri í byrjunarliði KA. Hann fær plús fyrir að koma sér í hættulegar stöður trekk í trekk. Hins vegar var hann oftar en ekki gripinn í landhelgi og dæmdur rangstæður í upplögðum tækifærum.

Það sást lítið til sóknarmanna HK framan af. Atli Þór Jónasson og Atli Hrafn Andrason létu lítið fyrir sér fara í leiknum í kvöld.

Dómarar

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dæmdi leikinn í kvöld. Gestirnir skoruðu mark í fyrri hálfleik sem var réttilega dæmt af og gestirnir mótmæltu ekki mikið.

Hins vegar hefði hann átt að sjá það þegar boltinn fór í höndina á Hans Viktori Guðmundssyni á 95. mínútu. Hann var vel staðsettur og á myndbandsupptökum að dæma hefði hann átt að benda á vítapunktinn.

Stemning og umgjörð

Stór hluti stuðningsmanna HK er í yngri kantinum og var mætingin ekki upp á marga fiska. Líklegt er að ungt knattspyrnufólk í efri byggðum Kópavogs sé að sprikla á fótboltamótum landsins um þessar mundir.

Vísir/Diego

„Hann mun sjá það sjálfur þegar hann horfir á þetta aftur“

Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, var allt annað en sáttur við dómara leiksins eftir 2-1 tap á móti KA.

Í uppbótartíma virtist boltinn fara í höndina á Hans Viktori Guðmundssyni, leikmanni KA, inn í vítateig en Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, dómari leiksins, var ekki á sama máli.

„Ég get ekki séð annað og hann mun sjá það sjálfur þegar hann horfir á þetta aftur. Mér var sýnt þetta þegar ég kom upp og ég get ekki séð annað nema að boltinn sé á leiðinni fram hjá honum og fari í hendina á honum,“ sagði Ómar Ingi skömmu eftir leik.

Fyrri hálfleikur var einstefna af hálfu KA en það var þó markalaust í hálfleik. Staðan var 2-0 þegar hefðbundin leiktími var liðinn en Arnþór Ari Atlason náði að klóra í bakkann í uppbótartíma.

„Þeir voru klárlega sterkari aðilinn og sérstaklega í fyrri hálfleik. Það var mjög áhugavert að sjá hvernig aðstoðardómarinn gat dæmt boltann inni hægra megin með Arnar [Frey Ólafsson] á milli hans og boltans. Ef það lítur eins við þá finnst mér þetta ekki sanngjarnt en þeir voru klárlega sterkari aðilinn út á velli,“ sagði Ómar Ingi.

Ómar setti einnig spurningarmerki við fyrsta mark KA en Arnar Freyr Ólafsson, markvörður HK, náði til knattarins aðeins of seint og virtist boltinn rúlla yfir marklínuna. Ómar var þó ekki alveg viss að markið ætti að standa.

„Ég er ekki viss um það. Mér finnst bara ótrúlegt að þú getir dæmt þetta þarna megin þegar boltinn er hinum megin við Arnar. Ég skil ekki hvernig, ég held að Villi [Vilhjálmur Alvar] hafi verið í betri stöðu en aðstoðardómarinn. Það getur vel verið að hann sé inni en hann var ekki langt inni og ótrúlegt að hann getur séð hann í gegnum Arnar“.

Lærisveinar Ómars voru frekar andlausir í fyrri hálfleik og áttu gestirnir frá Akureyri auðvelt með að opna vörn HK.

„Við byrjuðum leikinn illa, við náðum ekki að bregðast við hvorki inn á vellinum eða fyrir utan völlinn. Við vorum í miklu basli í fyrri hálfleik en förum inn í 0-0 og reynum að breyta til og gera hlutina öðruvísi,“ sagði Ómar Ingi.

„Seinni hálfleikurinn var töluvert jafnari en sá fyrri og að einhverju leyti gekk það upp. Ekki misskilja mig, að KA hafi ekki verið betri út á velli en þetta víti hlýtur átt að vera víti. Ég get ekki misskilið þetta svona í sjónvarpinu og á vellinum. Ég veit ekki hvað þarf til þess að Vilhjálmur Alvar dæmi rétt hérna í vítateignum okkar. Það er hægt að flétta upp vítum frá því í fyrra á móti Fram og fleiri hlutum. Ég bara skil þetta ekki, hann sér boltann fara í brjóstkassann á honum, þá er myndbandsupptakan bara fiffuð,“ bætti sársvekktur Ómar við að lokum.

Hallgrímur Jónasson.Vísir/Hulda Margrét

„Við börðumst eins og ljón“

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, var ánægður með að ná í þrjú stig í Kórnum í kvöld. Leikurinn var annar sigurleikur KA í röð í Bestu deildinni og er liðið komið úr fallsæti.

„Ég er mjög sáttur með 95% af leiknum. Við spilum vel og sköpum fullt af færum og áttum að skora miklu fleiri mörk. HK eru bara virkilega góðir í sumum þáttum leiksins og við vorum búnir að sjá það. Þegar markið dettur þá verður hálfgert ‚panic' í lokin hjá okkur. Við erum búnir að skipta fjórum inn á og það riðlar leiknum. Þeir gerðu þetta bara erfitt fyrir okkur síðustu mínúturnar,“ sagði Hallgrímur eftir leikinn í Kórnum.

„Við börðumst eins og ljón fyrir hvorn annan. Það hefur einkennt mitt lið, þó að hlutirnir hafa ekki gengið þá hafa allir staðið saman og það var mjög sætt að það dugði í dag,“ bætti Hallgrímur við.

KA herjaði á mark HK framan af leik en náðu ekki að brjóta ísinn fyrr en á 51. mínútu. Hallgrímur ítrekaði að það megi ekki missa þolinmæðina þó að hlutirnir gangi ekki upp.

„Ég var smá svekktur því þetta hefur saga okkar áður í sumar, við náum ekki að pota honum inn. Það er bara að halda áfram og gera vel það sem við gerum vel og ekki missa þolinmæðina. Ef þú ferð of hátt á HK og þeir geta komið með skyndisóknir á stórum mönnum og unnið skallaboltana þá lendiru í veseni. Við héldum þolinmæðinni og fókus, þeir fá ekki mörg færi og fáum frekar ódýrt mark á okkur“.

Allt leit út fyrir öruggan og nokkuð þægilegan sigur en Arnþór Ari Atlason náði að minnka muninn fyrir HK í 2-1 og kom mikil spenna í leikinn í uppbótartíma.

„Það er eðlilegt þegar þú færð svona mark að það komi ‚panic'. Það er bara spurning, ætlar þú að vera svekktur og ekki gera neitt eða ætlar þú að vinna alvöru vinnu til þess að halda þessu heim og við gerðum það. Það er klárt mál eins og leikurinn leit út í 2-0 og liðið mitt með fullt sjálfstraust þá ættum við ekki að hleypa þessu í svona mikla spennu,“ sagði Hallgrímur þegar hann var spurður út í síðustu mínútur leiksins.

Hallgrímur er mjög sáttur með spilamennskuna að undanförnu og er útlitið orðið mun bjartara fyrir hann og hans lærisveina.

„Þetta er æðislegt, komnir úr fallsæti og erum búnir að vinna fimm af síðustu átta leikjum á móti úrvalsdeildarliðum, tveir í bikarnum og þrír í deildinni. Það er bara jákvætt og nú er bara ótrúlega spennandi verkefni. Við eigum heimaleik í bikarnum og í fyrra fórum við í úrslitaleikinn og áttum flottan leik en náðum því miður ekki klára það. Okkur langar rosalega að upplifa það aftur að fara á Laugardalsvöll og stemninguna sem KA-fólk kom með,“ sagði Hallgrímur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira