Enski boltinn

Darwin Nunez slóst við á­horf­endur í stúkunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darwin Nunez sést hér kominn upp í stúku eftir leikinn í nótt.
Darwin Nunez sést hér kominn upp í stúku eftir leikinn í nótt. EPA-EFE/BRIAN WESTERHOLT

Liverpool framherjinn Darwin Nunez var kominn upp í stúku eftir tap Úrúgvæ á móti Kólumbíu í undanúrslitaleik Suðurameríkukeppninnar í nótt.

Kólumbía vann leikinn 1-0 og mætir Argentínu í úrslitaleiknum um helgina. Úrúgvæ var manni fleiri allan seinni hálfleikinn en tókst samt ekki að nýta sér það.

Leikmenn Úrúgvæ sögðust hafa farið upp í stúku eftir leikinn til að verja fjölskyldur sínar. Þeir töldu að fólki þeirra stæði hætta af stuðningsmönnum Kólumbíu. Úrúgvæarnir kvörtuðu líka yfir lítilli öryggisgæslu en leikurinn var spilaður í Charlotte í Bandaríkjunum.

Það lítur þó út fyrir það að Nunez hafi gengið lengst þegar kom að því að slást við kólumbísku stuðningsmennina. Hann sást þar meðal annars kýla einn mann í kólumbískri landsliðstreyju.

„Fjölskyldur okkur voru í hættu. Þetta er algjör hörmung. Við urðum að fara upp í stúku til að passa upp á okkar fólk. Það voru lítil börn þarna. Ég sá ekki einn lögreglumann,“ sagði Úrúgvæinn José María Giménez eftir leik.

Nunez átti ekki góðan dag inn á vellinum þar sem hann fór illa með fjölda færa í leiknum. Hann gæti líka hafa komið sér í mikil vandræði með æsingi sínum eftir leik.

Þetta var ljótur endir á svekkjandi kvöldi fyrir Úrúgvæja en Nunez var algjörlega niðurbrotinn maður í leikslok. Ekki í fyrsta sinn sem slæm færanýting hans fer illa með lið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×