Fótbolti

Ungu fram­herjar Spán­verja gætu báðir fengið EM-gull í af­mælis­gjöf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nico Williams og Lamine Yamal fagna saman marki á Evrópumótinu í Þýskalandi.
Nico Williams og Lamine Yamal fagna saman marki á Evrópumótinu í Þýskalandi. Getty/Alex Grimm

Spánverjar hafa verið frábærir á Evrópumótinu í Þýskalandi og þar hefur munað miklu um framlag frá tveimur ungum framherjum liðsins.

Spænska liðið mætir Englandi í úrslitaleiknum í Berlín í kvöld en liðið hefur unnið alla sex leiki sína á mótinu og markatalan er 13-3.

Nico Williams og Lamine Yamal spila sitthvorum megin við reynsluboltann Álvaro Morata í þriggja manna framlínu spænska liðsins.

Svo skemmtilega vill til að þessir ungu framherjar Spánverja gætu báðir fengið EM-gull í afmælisgjöf í kvöld.

Fæddir 2002 og 2007

Nico Williams hélt nefnilega upp á 22 ára afmælið sitt á föstudaginn og sautján ára afmæli Lamine Yamal var í gær. Nico er fæddur 12. júlí 2002 en Lamal er fæddur 13. júlí 2007.

Á þessu Evrópumóti er Williams með eitt mark og eina stoðsendingu en hann hefur alls skorað þrjú mörk í nítján landsleikjum.

Yamal er aftur á móti með eitt mark og þrjár stoðsendingar á mótinu en þessi sautján ára strákur hefur skorað þrjú mörk í þrettán landsleikjum.

Spila þeir saman hjá Barcelona?

Yamal er alinn upp hjá Barcelona en Williams hjá Athletic Bilbao. Nú er mikið skrifað um það á Spáni að Barcelona ætli að gera allt í sínu valdi til þess að strákarnir spili saman í framlínu Barcelona á næstu leiktíð.

Hvort að Börsungar hafi efni á því að kaupa eina af spútnikstjörnum Evrópumótsins er hins vegar allt önnur saga en góður er hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×