Enski boltinn

Eins og staðan er í dag úti­lokar Klopp að snúa aftur í þjálfun

Aron Guðmundsson skrifar
Jurgen Klopp steig frá borði hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Liverpool eftir síðasta tímabil.
Jurgen Klopp steig frá borði hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Liverpool eftir síðasta tímabil.

Jurgen Klopp, fyrrverandi knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool, segir að eins og staðan sé í dag útiloki hann að snúa aftur í þjálfun. Afstaða sem gæti breyst innan nokkurra mánaða en Þjóðverjinn segist of ungur til þess að taka sér ekkert fyrir hendur. 

Klopp, sem lét af störfum sem knattspyrnustjóri Liverpool eftir síðasta tímabil, hafði gefið það út að hann hygðist taka sér hlé frá þjálfun eftir árin á Anfield sem höfðu í för með sér ljúfar stundir og titla. Stundir sem höfðu einnig í för með sér streitu sem hafði tekið sinn toll á Klopp. 

Frá því að hann yfirgaf herbúðir Liverpool hefur Jurgen Klopp verið orðaður við margar þjálfarastöður og nú síðast við landsliðsþjálfarastarfið hjá enska landsliðinu eftir að Gareth Southgate steig til hliðar í starfi eftir Evrópumótið fyrr í sumar. 

Klopp satt fyrir svörum á alþjóðaráðstefnu knattspyrnuþjálfara í Wurzburg og þar var hann inntur eftir því hvað framtíðin bæri í skauti sér fyrir hann. 

Játaði Klopp þar að hann væri óviss með það hvort hann myndi vilja snúa aftur í þjálfun. Hins vegar yrði knattspyrnan alltaf hluti af framtíðarsýn hans. Sama í hvaða formi það væri.

„Ég mun taka mér eitthvað fyrir hendur,“ sagði Klopp í Wurzburg. „Ég er of ungur til þess að eyða tíma mínum eingöngu í að spila paddle eða verja tíma með barnabörnunum. 

Mun ég fara aftur í þjálfun? Ég myndi eiginlega útiloka það á þessari stundu. Sjáum hvernig hlutirnir þróast næstu mánuðina. Eins og staðan er núna er það ekki að heilla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×