Erlent

Freista þess að um­lykja rúss­neskt her­lið í Kúrsk

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Innrás Úkraínu í Kúrskhéraði hófst 6. ágúst.
Innrás Úkraínu í Kúrskhéraði hófst 6. ágúst. Getty/Kostiantyn Liberov

Úkraínumenn hafa eyðilagt þrjár brýr yfir ána Seim í Kúrskhéraði. Innrásin inn í Rússland hófst þann sjötta ágúst síðastliðinn og segir Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti að tilgangurinn með innrásinni sé að búa til hlutlaust svæði til að vernda Úkraínu.

Guardian hefur eftir rússneskum embættismönnum að brúin í þorpinu Karísj hafi orðið fyrir tjóni í gærnótt vegna úkraínsks stórskotaliðs. Var hún síðasta brúin á þessum hluta víglínunnar sem hægt væri að nota til hergagnaflutninga eftir að tvær aðrar brýr yfir sömu á voru eyðilagðar.

Samkvæmt fréttaflutningi Guardian stefnir úkraínski herinn að því að sækja áfram úr bænum Súdsja sem hann náði á vald sitt í síðustu viku. Ófærar brýrnar hafa gert það að verkum að rússneskt herlið sitji fast sunnan megin árinnar í Koronevskí.

Fari áhlaupið að óskum koma Úkraínumenn til með að ná um 700 ferkílómetrum af rússnesku landsvæði á sitt vald. Rússar hafa unnið að því að koma upp bráðabirgðabrúm yfir Seim til að auðvelda birgðaflutninga en þær eru auðveld skotmörk úkraínskra skotflauga.

Í dag tóku Úkraínumenn þorpin Snagost og Apanasovka yfir en verulega hefur dregist úr hraða framsóknar þeirra.

„Staðan er flókin þar. Rússarnir hafa fengið til sín aukalið. Sumir eru hæfir, aðrir ekki. Rússunum hefur reynst virkilega erfitt að ná aftur töpuðu landi á sitt vald,“ hefur Guardian eftir háttsettum úkraínskum embættismanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×