Innlent

Hafa fundið fimm bílanna

Atli Ísleifsson skrifar
Bílunum var stolið úr húsnæði Heklu á þriðjudagskvöld.
Bílunum var stolið úr húsnæði Heklu á þriðjudagskvöld. Vísir/Vilhelm

Lögregla höfuðborgarsvæðisins og starfsmenn Heklu hafa fundið fimm af þeim sex bílum sem stolið var úr húsnæði Heklu við Laugaveg í Reykjavík á þriðjudagskvöld.

Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, segir í samtali við Vísi að bílarnir hafi fundist í götum í grennd við Heklu, meðal annars í Borgartúni. Um var að ræða bíla ýmist í eigu umboðsins eða viðskiptavina.

Friðbert segir að ekki hafi verið miklar skemmdir á bílunum en þess sjötta er enn leitað. Um var að ræða tvo Volkswagen-bíla, þrjá Skoda-bíla og einn Audi.

Ásmundur Rúnar Gylfason aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við fréttastofu að málið sé í rannsókn hjá embættinu. Búið sé að finna fimm bíla af sex.

Í tilkynningu frá Heklu, sem send var á fjölmiðla í gær, sagði að eigendum bílanna hafi verið tilkynnt um þjófnaðinn sem hafi náðst í öryggismyndavélum.


Tengdar fréttir

Sex bílum stolið af Heklu

Brotist var inn í höfuðstöðvar Heklu við Laugaveg 174 í Reykjavík seint í gærkvöldi og sex bifreiðum stolið. Bifreiðarnar eru bæði í eigu fyrirtækisins og viðskiptavina þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×