Gyokeres sýndi nú síðast mátt sinn og megin með því að skora þrennu í 4-1 stórsigri á Englandsmeisturum Manchester City í Meistaradeildinni í vikunni.
Gyokeres hefur skorað 48 mörk á árinu en er langefstur af þeim sem spila í einni af sjö bestu deildum Evrópu. Haaland er fimmtán mörkum á eftir með 33 mörk.
Það hjálpaði ekki Haaland í þessum samanburði að í umræddum leik þá klikkaði Haaland á vítaspyrnu á sama tíma og Gyokeres raðaði inn mörkum hinum megin á vellinum.
Hollenska knattspyrnugoðsögnin Rafael van der Vaart er á því að Viktor Gyokeres sé hreinlega betri útgáfa af Erling Haaland.
„Hljómar kannski svolítið klikkað en ég held að hann sé betri útgáfa af Haaland. Haaland er auðvitað ótrúlegur en Gyokeres býður upp á aðeins meira eða eitthvað annað,“ sagði Rafael Van Der Vaart.
Marco Van Basten, enn stærri hollensk goðsögn, tjáði sig líka um Svíann.
„Hann er alvöru fótboltamaður að mínu mati. Alvöru framherjatýpa. Sterkur, skorar auðveldlega og er yfirvegaður fyrir framan markið. Hann hefur líka getu til að fara fram hjá markverðinum. Hann er virkilega öflugur framherji og ég hef gaman af honum,“ sagði Van Basten.