Innlent

Bæjarstjóraskipti á á­ætlun í Hafnar­firði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rósa Guðbjartsdóttir hefur gegnt embætti bæjarstjóra Hafnarfjarðar frá árinu 2018.
Rósa Guðbjartsdóttir hefur gegnt embætti bæjarstjóra Hafnarfjarðar frá árinu 2018. Vísir/Vilhelm

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði og nýkjörinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi, lætur af störfum sem bæjarstjóri um áramótin eins og til stóð. Samkvæmt málefnasamningi við Framsóknarflokksins verður Valdimar Víðisson oddviti flokksins og forseti bæjarráðs bæjarstjóri síðasta eina og hálfa ár kjörtímabilsins.

Rósa var ekki eini bæjarstjórinn sem bauð fram krafta sína á Alþingi í nýafstöðnum þingkosningum. Það gerði líka Arna Lára Jónsdóttir sem náði kjöri á þing fyrir Samfylkinguna. Tilkynnt var í dag að Sigríður Júlía Brynleifsdóttir tæki við sem bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ en hún hefur verið bæði forseti bæjarstjórnar og formaður skipulags- og mannvirkjanefndar ásamt því að vera skólastjóri Lýðskólans á Flateyri.

Rósa segir í samtali við Vísi taka við sem forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði um áramót. Ekki liggi fyrir hver muni fylla þá skó sem hún skilji eftir, þó ljóst sé að það verði einhver úr Sjálfstæðisflokknum, né nákvæmlega hvenær hún yfirgefi sveitastjórnastörfin. Hún sé búin að vera oddviti flokksins í Hafnarfirði í tíu ár og stökkvi ekki frá borði án þess að undirbúa vel hver taki við verkefnum hennar.

Samkvæmt starfsáætlun Alþingis á þing að koma saman þann 20. janúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×