Fleiri fréttir

Ungliðar vilja að Ísland fordæmi árásirnar

Stjórnir Ungra vinstri grænna, Ungra vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu, í Borgarbyggð og á Akureyri skora á ríkisstjórn Íslands og utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, að fordæma opinberlega loftárásir NATO-sveita í Líbíu. Í sameiginlegri ályktun frá þessum félögum segir að ung vinstri græn vilji enn og aftur ítreka að Ísland sé herlaust land sem eigi að sjá sóma sinn í því að styðja ekki við bandalög og árásarþjóðir sem fari í stríð. Sýnt hefur verið svart á hvítu í ítrekuðum stríðum vesturveldanna að með loftárásum sé aldrei hægt að tryggja öryggi almennra borgara.

Sjötug kona vann 30 milljónir í happadrætti

Kona um sjötugt vann 30 milljónir í Milljónaveltu Happdrættis Háskólans þegar dregið var í dag. Vinningurinn kom á einfaldan miða í eigu konunnar, sem býr á höfuðborgarsvæðinu. Hún hafði átt miðann um árabil. Konan var að vonum himinlifandi þegar hún fékk fréttirnar.

Skutu á líbíska flugvél

Áhöfn franskrar herþotu skaut á líbíska flugvél í dag, en áhöfn líbísku flugvélarinnar hafði brotið flugbannið yfir líbískri lofthelgi sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna setti á í síðustu viku. Líbíska vélin var nýlent í borginni Misrata þegar ráðist var á hana. Þetta er í fyrsta skiptið sem ráðist er á vél eftir að flugbannið var samþykkt.

Dauðsföllum fækkað um 80%

Dauðsföllum vegna hjartasjúkdóma á Íslandi hefur fækkað um áttatíu prósent undanfarna áratugi hjá fólki 75 ára og yngri. Árangurinn þykir gríðarlega góður. Prófessor í hjartalækningum segir þó að blikur séu á lofti.

EVE Fanfest sett í dag

EVE Fanfest, árleg hátíð og ráðstefna tölvuleikjafyrirtækisins CCP, var sett í dag. Það var Jón Gnarr borgarstjóri sem setti hátíðina. Íí ræðu sinni sagði hann frá því að hann spili sjálfur EVE Online tölvuleikinn. Hátíðin hefur verið haldin nær árlega frá árinu 2004 og en þessi er sú fjölmennasta til þessa.

Kaupþingsmenn geta sótt um samfélagsþjónustu

Þeir Daníel Þórðarson og Stefnir Ingi Agnarsson, sem dæmdir voru í sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi, í Hæstarétti í dag munu eiga þess kost að sækja um að taka refsinguna út í samfélagsþjónustu. Þetta segir Páll Winkel fangelsismálastjóri í samtali við Vísi.

ÍAV segir alla heila í Hörpunni

Sigurður Ragnarsson, framkvæmdastjóri hjá Íslenskum aðalverktökum, sem stýrir byggingu Hörpunnar hafði samband við fréttastofu og sagðist ekki kannast við að neitt slys hafi orðið í Hörpunni í dag.

Stefnir og Daníel fá sex mánuði óskilorðsbundið

Hæstiréttur Íslands mildaði refsingu yfir fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings, þeim Daníel Þórðarsyni og Stefni Agnarssyni, en þeir voru dæmdir í átta mánaða óskilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Björn Bjarnason: Jóhanna mesti gervibaráttumaður sem ég hef kynnst

"Í mínum huga er ótrúlegt að sjálf Jóhanna Sigurðardóttir skuli standa frammi fyrir úrskurði Kærunefndar jafnréttismála um að hún hafi brotið jafnréttislög við embættisveitingu í forsætisráðuneytinu. Þetta og viðbrögð hennar við úrskurðinum sanna mér endanlega að Jóhanna er mesti gervibaráttumaður í stjórnmálum sem ég hef kynnst,“ skrifar Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins um úrskurð kærunefndar jafnréttismála gegn Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á heimasíðu sína.

Áfram-hópurinn: Segjum Já við Icesave

Áfram-hópurinn kynnti stefnumál sín á blaðamannafundi á Kjarvalsstöðum fyrr í dag. Áfram-hópurinn er þverpólitísk grasrótarsamtök fólks sem kýs að taka ábyrga og upplýsta afstöðu gagnvart Icesave-samningi Íslendinga við Breta og Hollendinga. Besta leiðin í stöðunni, að mati hópsins, er að segja JÁ í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl. Þannig verði horfið frá stöðnun og stórt skref stigið fram á við til enduruppbyggingar efnahags- og atvinnulífsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Áfram-hópnum. Á fundinum voru mættir 14 aðstandendur hópsins - en aðstandendahópurinn telur þegar 60 manns, víðsvegar að úr þjóðfélaginu. Sá hópur fer sífellt stækkandi. Dóra Sif Tynes, lögmaður, flutti opnunarávarp, þar sem hún sagði hópinn sammála um það að farsælast og áhættuminnst væri að ljúka Icesave-málinu með þeim samningum sem nú liggja fyrir. "Sátt í þessu máli verður ekki náð nema að fram fari málefnaleg og heildstæð umræða um málið, þar sem öll sjónarmið koma fram svo fólk geti tekið upplýsta ákvörðun á kjördag," sagði Dóra. Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, sagði Icesave-málið geta skipt máli við þær viðræður um kjarasamninga sem nú standa yfir. "Fyrirtæki hafa ekki aðgang að erlendum lánamörkuðum, sem er forsenda þess að koma efnahagslífinu af stað og endurheimta þann kaupmátt sem við höfum tapað. Þar stendur Icesave í veginum. Við teljum því Icesave vera hluta af okkar kjarabaráttu." Margrét Kristmannsdóttir sagði spurninguna um lagaskyldu Íslendinga til greiðslu löngu vera orðna að aukaatriði. "Icesave snýst um lífskjör okkar á komandi árum, um að stækka köokuna, svo það verði meira til skiptana fyrir okkur öll." Að lokum sagði Gunnar Ellert Geirsson, framkvæmdastjóri í Reykjanesbæ, Suðurnesjamenn þekkja af eigin raun hversu mikil þörf er til að koma fjárfestingu í atvinnulífinu af stað. "Ég segi já við Icesave vegna framtíðarinnar," sagði Gunnar Ellert. Áfram-hópurinn heldur úti heimasíðunni afram.is, þar sem hægt er að fræðast frekar um afstöðu aðstandenda hans til samningsins.

Enn aukast mótmælin í Sýrlandi

Mótmælendur hafa safnast saman í sýrlensku borginni Daraa í dag og hrópað slagorð gegn ríkisstjórninni og forsetanum Al Assad. Í dag voru mótælendur sem féllu fyrir byssukúlum lögreglunnar í gær bornir til grafar og segja sumir að allt að 20 þúsund manns hafi komið saman af því tilefni og mótmælt framferði stjórnarinnar. Að minnsta kosti fimmtán manns hafa látið lífið í bardögum lögreglu og mótmælenda í gær og öryggissveitir yfirvalda hafa umkringt miðborgina til þess að reyna að lægja ófriðaröldurnar. Mótmælendur sækja hinsvegar í sig veðrið og nú er fólk hvatt til þess að koma saman á morgun að loknum föstudagsbænum múslima.

Jóhanna: Engum heilvita manni dytti það í hug

„Dettur einhverjum heilvita manni í hug, að þrjár konur, ég sem forsætisráðherra, ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu og mannauðsráðgjafinn, sem einnig er kona, hafi eina einustu mínútu gert sér í hugarlund að þær væru að brjóta jafnréttislög með þessari skipun í embætti?" spurði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á Alþingi fyrir stundu. Þar flutti hún skýrslu um úrskurð Kærunefndar jafnréttismála sem var á þá leið að Jóhanna hafi brotið gegn jafnréttislögum. Jóhanna segir mikilvægt að taka úrskurðinn alvarlega og fara vel yfir hann til að unnt sé að beita réttum vinnubrögðum í framtíðinni. Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun sagðist Jóhanna ekki sjá ástæðu til að segja af sér vegna málsins þar sem faglega hefði verið staðið að ráðningunni. Þar tók hún fram að hún hefði hins vegar íhugað afsögn ef hún hefði gerst sek um að ganga framhjá faglegu mati og skipað pólitískt í stöðuna, og rifjaði í því sambandi upp skipan Árna Mathiesen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem skipaði Þorstein Davíðsson sem héraðsdómara þrátt fyrir að hann væri langt því frá að vera metinn hæfastur í stöðuna.

Hvernig samrýmist ábyrgðin lögum?

Innanríkisráðuneytið vill að Mosfellsbær skýri hvernig það geti samrýmst lögum að sveitarfélagið gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir 246 milljóna króna bankaláni fyrirtækisins Helgafellsbygginga hf.

Tryggir eftirlit með skilanefndum föllnu bankanna

Viðskiptaráðherra segir að í smíðum sé frumvarp sem eigi að tryggja eftirlit með skilanefndum föllnu bankanna. Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn þingmanns um hvort hann legði blessun sína yfir framferði skilanefnda. Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun spurði Þráinn Bertelsson, þingmaður vinstri grænna, Árna Pál Árnason, viðskiptaráðherra út í störf og framferði skilanefnda bankanna. Þráinn sagði sér þætti starfsemi þeirra til marks um að hópar í landinu hefðu ekkert lært af hruninu. Þráinn sagðist vel gera sér grein fyrir því að eldveggur eigi að vera milli nefnda og stjórnvalda en það breyti því ekki að stjórn ríkisins sé í höndunum ríkistjórnarinnar og alþingis. Hann vildi því spyrja Árna Pál hvort hann væri sáttur við störf skilanefnda og framferði eða hvort hann hygðist aðhafast eitthvað. Árni Páll benti á að skilanefndirnar störfuðu á ábyrgð kröfuhafa en það væri mikilvægt að hafa eftirlit með þeim og slitastjórnum. Slíku eftirliti væri því miður mjög ábótavant nú. Þá þyrfti að tryggja að einstaklingar og fyrirtæki sem skulda hinum föllnu bönkum fái úrlausn sinna mála með sanngjörnum hætti en misbrestur hefði verið á því. Hins vegar vilji hann verja það kerfi að kröfuhafar fari með ábyrgð á þrotabúunum. Hann sagði að unnið væri að úrbótum á þessu og að frumvarp væri í undirbúningi um málið og stefnt væri á að leggja það fram í lok mánaðarins. Með því sé þess freistað að fella skilanefndir og slitastjórnir undir ákveðið eftirlit en jafnframt auka aðkomu kröfuhafa að því að hafa eftirlit með stórum ákvörðunum og ráðstöfun eigna. Þráinn sagði svör ráðherra loðin. Það þurfi einnig að tryggja að ákvarðanir skilanefnda og slitastjórna um eigin viðskipti við þrotabúin séu með eðlilegum hætti og virtar séu grundvallar leikreglur sem almennt eiga að tíðkast í viðskiptalífi en semji ekki við sjálfan sig um aðstöðu kaup og kjör. Gagnrýni Þráins svaraði Árni á þá leið að feta þurfi vandratað meðalhóf með frumvarpinu.

Tillaga um stjórnlagaráð samþykkt á Alþingi

Þingsályktunartillaga um skipun stjórnlagaráðs var samþykkt á Alþingi rétt í þessu. Tillagan var samþykkt með 31 greiddu atkvæði. 21 þingmaður var á móti og sjö greiddu ekki atkvæði.

Ellefu þúsund mótmæla - fleyta friðarkertum við Ráðhúsið

Ellefu þúsund manns hafa mótmælt fyrirhuguðum sameiningum leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila hjá Reykjavíkurborg. Undirskriftasöfnun stendur enn yfir á vefnum Born.is. Stefnt er að því að foreldrar sem eru andsnúnir sameiningunum fjölmenni í Ráðhús Reykjavíkur klukkan 16.30 í dag og hálftíma síðar verða undirskriftirnar afhentar fulltrúa borgarstjórnar. Þá munu foreldrafélög afhenda eintök af ályktunum sínum gegn sameiningunum og foreldraráð eintök af umsögnum þeirra.

Ögmundur og Kristján Möller styðja ekki stjórnlagaráð

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra samgöngu- og sveitastjórnarmála ætla ekki að greiða atkvæði með því að Alþingi skipi stjórnlagaráð. Kristján rökstyður hjásetu sína með því að aðeins tveir fulltrúar landsbyggðarinnar séu á meðal þeirra 25 sem kjörnir voru í stjórnlagaþing í nóvember, og er gert ráð fyrir að verði skipaðir í ráðið samkvæmt þingsályktunartillögunni sem kosið er um. Eftir að Hæstiréttur ógildi kosninguna til stjórnlagaþing sagði Ögmundur að hann myndi ekki sætta sig við neina hjáleið að stjórnlagaþingi, og að hann myndi hlíta úrskurði Hæstaréttar. Hann sagðist líta svo á að skipan stjórnlagaráðs sé sannarlega hjáleið. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, segist helgur ekki geta tekið þátt í því að alþingismenn virði dóm Hæstaréttar að vettugi. Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, greiðir atkvæði gegn tillögunni, og sagði við það tilefni: "Við sjálfstæðismenn munum greiða atkvæði gegn tillögunni." Atkvæðagreiðslu er ekki lokið.

Jóhanna segist ekki ætla að segja af sér

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra íhugar ekki afsögn í framhaldi af því að hún braut jafnréttislög samkvæmt úrskurði Kærunefndar jafnréttismála. Þetta sagði hún á Alþingi fyrir stundu. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tók til máls á Alþingi í óundurbúnum fyrirspurnatíma og sagðist ekki trúa öðru en að Jóhanna væri að íhuga afsögn vegna málsins. "Er hún ekki örugglega alvarlega að íhuga afsögn?" spurði Bjarni og sagði blasa við þjóðinni að það væri eina færa leiðin fyrir hana. Jóhanna tók þá til máls og svaraði Bjarna: "Ég tel ekki efni til að segja af mér" og vísaði til þess að faglega hefði verið staðið að ráðningu umrædds skrifstofustjóra hjá forsætisráðuneytinu. Tók Jóhanna fram að sú kona sem kærði ráðninguna til Kærunefndar jafnréttismála hafi verið metin fimmta hæfust í starfið hjá ráðuneytinu. Bent hefur verið á að ef umrædd kona hefði verið ráðin í starfið ætti Jóhanna mögulega yfir höfði sér ákúrur fyrir að ráða flokkssystur sína frekar en hæfari einstakling. Jóhanna sagði á Alþingi að þó hún íhugaði ekki afsögn þá hefði það vel komið til greina ef hún hefði gerst sek um pólitíska stöðuveitingu. Rifjaði hún í framhaldinu upp ráðningu Þorsteins Davíðssonar sem héraðsdómara í ráðherratíð Árna Mathiesen sem leit framhjá hæfnismati og skipaði þann sjöunda hæfasta í stöðuna.

Kosið um stjórnlagaráð

Kosið verður um hvort Alþingi skipar stjórnlagaráð, á Alþingi upp úr klukkan ellefu. Um er að ræða þingályktunartillögu sem gengur út á að fallið verði frá fyrirhuguðu stjórnlagaþingi en þess í stað skipi Alþingi 25 einstaklinga í ráðgefandi stjórnlagaráð. Gert er ráð fyrir að þetta verði sömu 25 einstaklingar og voru kjörnir til stjórnlagaþings í nóvember. Ef einhver þeirra vill ekki taka sætið verður leitað til þess sem er næstur á listanum. Búist er við því að tillagan verði samþykkt, þrátt fyrir að fyrir liggi andstaða sjálfstæðismanna sem og nokkurra stjórnarþingmanna, þeirra á meðal Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra. Flutningsmenn þingsályktunartillögunnar á Alþingi eru Álfheiður Ingadóttir, Birgitta Jónsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir.

Gott færi í Hlíðarfjalli

Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli verður opið í dag frá hádegi til klukkan sjö í kvöld. Þar er fjögurra gráðu frost, logn og gott færi. Athugað veður með opnun í Bláfjöllum klukkan ellefu.

Gullfoss á meðal fallegustu fossa heims

Gullfoss hefur verið valinn einn af tíu fallegustu fossum heims á ferðasíðu CNN fréttastofunnar. Fossinn er þar í hópi heimsfrægra ferðamannastaða á borð við Niagara fossana, Viktoríufossa í Afríku og Englafossa í Venesúela sem eru þeir hæstu í heimi. Gullfos er sagður einn óvenjulegasti foss heimsins. Bent er á að hann sé eiginlega á tveimur hæðum og þrátt fyrir að fossarnir tveir séu ekki sérstaklega háir eru þeir óviðjafnanleg sjón að mati blaðamannsins.

Slökkviliðið kallað út í Eyjum

Slökkviliðið í Vestmannaeyjum var kallað að fjölbýlishúsi við Foldahraun upp úr miðnætti, þar sem mikinn reyk lagði frá einni íbúð í húsinu. Nágrannar heyrðu í reykskynjara og komust inn í íbúðina þar sem húsráðandi var sofandi, og drifu hann út.

Þvertaka fyrir dauða óbreyttra borgara

Yfirmaður í Bandaríkjaher staðhæfir að engar staðfestar fregnir hafi borist af mannfalli á meðal óbreyttra borgara í Líbíu af völdum loftárása bandamanna síðustu daga. Þetta gengur þvert á það sem talsmenn Gaddafís einræðisherra hafa staðhæft. Aðmírállinn Gerard Hueber segir að verkefni bandamanna sé að verja saklausa borgara og því séu skotmörk valin með það sem helsta markmið að skaða ekki almenna borgara.

Myrtu óbreytta borgara sér til skemmtunar

Bandarískur hermaður hefur viðurkennt að hafa verið meðlimur í hópi sem myrti almenna borgara í Afganistan sér til skemmtunar. Hermaðurinn, hinn 23 ára gamli Jeremy Morlock, hefur borið fyrir herrétti að hann hafi ásamt nokkrum félögum sínum í hernum, sviðsett átök til þess að eiga auðvelt með að drepa saklausa menn sem urðu á vegi þeirra.

Sviðsetti rán til að stríða félögunum

Hópi sundfélaga, sem hafði sameiginlegan klefa í sundmiðstöðinni í Keflavík, brá heldur betur í brún að loknu sundinu í gærkvöldi, þegar í ljós kom að allir farsímar, iPpod tæki, úr, skór og fleiri verðmæti, voru horfin úr klefanum.

Rúmlega tíu þúsund hafa mótmælt skólatillögum

Tíu þúsund og fimm hundruð manns hafa tekið þátt í undirskriftasöfnun á vefnum börn.is. Þar er skorað á borgarstjórn Reykjavíkur að falla frá fyrirhuguðum breytingum á rekstri leik- og grunnskóla og frístundaheimila í borginni.

Starfsmenn Fukushima aftur til starfa

Starfsmenn Fukushima kjarnorkuversins hafa enn einu sinni snúið aftur til vinnu sinnar við að kæla kjarnaofna versins, en allt starfsfólkið var flutt á brott síðdegis í gær þegar svartur reykur fór að liðast upp frá einum ofninum sem skemmdist þegar jarðskjálftinn reið yfir þann ellefta mars síðastliðinn. Óljóst er hvað olli reyknum en engin merki voru um að eldur hefði brotist út og geilslamengun á svæðinu jókst ekki að því er stjórnvöld segja.

Þyrla sótti slasaðan vélsleðamann

Vélsleðamaður slasaðist þegar hann var á ferð í Vestdal á Fjarðarheiði, ofan við Seyðisfjörð í gærkvöldi. Björgunarsveitir voru kallaðar út og héldu ásamt lækni á vettvang og var kallað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Að minnsta kosti tíu mótmælendur skotnir til bana

Að minnsta kosti tíu mótmælendur létu lífið og tugir eru slasaðir eftir að lögreglan í Sýrlandi hóf skothríð á hóp fólks sem mótmælti drápum á sex mótmælendum í borginni Daraa í fyrrinótt.

Nýtt frumvarp um RÚV lagt fram á vormánuðum

Stjórnvöld hafa farið fram á frest til aprílloka til að gera þær úrbætur á rekstar- og lagaumhverfi Ríkisútvarpsins (RÚV) sem ESA, eftirlitsstofnun EFTA fór fram á í síðasta mánuði. Beiðni stjórnvalda og skýringar á stöðu málsins voru sendar ESA í gær.

Saksóknarinn löglega kjörinn

Saksóknari Alþingis er löglega kjörinn þrátt fyrir að hann hafi ekki verið kjörinn á Alþingi á sama þingi og ákvað að ákæra skyldi Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir landsdómi.

Sitja hvort í sinni nefndinni

Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason sitja hvort í sinni fastanefnd þingsins eftir nefndakosningar í gær.

Fróaði sér fyrir framan þrjár skólastúlkur

Þrjár stúlkur úr tíunda bekk í Engjaskóla urðu fyrir því á heimleið úr skólanum á þriðjudagsmorgun að ungur maður sem þeir mættu á göngustíg hafði í frammi kynferðislega tilburði við þær.

Jóhanna flytur skýrslu um úrskurð kærunefndar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðhera ætlar að gefa Alþingi munnlega skýrslu um úrskurð Kærunefndar jafnréttismála varðandi ráðningu skrifstofustjóra við deild í forsætisráðuneytinu, sem kærð var til nefndarinnar.

Láta allt vera nema verðmæta skartgripi

Innbrotsþjófar, sem einkum eru á höttunum eftir dýrum skartgripum, hafa á undanförnum vikum herjað á tiltekin hverfi á höfuðborgarsvæðinu. Lögregla segir um faraldur að ræða. Meðal annars var dýrmætum ættagripum stolið frá konu sem Fréttablaðið ræddi við í gær.

Ekki á að þrengja að fjölmiðlum

Menntamálanefnd Alþingis hefur lokið fyrstu yfirferð frumvarps að heildarlögum um fjölmiðla. Önnur umræða fer fram á næstunni.

Sjá næstu 50 fréttir