Þjóð­verjar með al­gjöra yfir­burði í seinni hálf­leik og á leið í átta liða úr­slit

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kai Havertz skoraði fyrra markið af vítapunktinum og fékk mörg fín færi til að bæta við.
Kai Havertz skoraði fyrra markið af vítapunktinum og fékk mörg fín færi til að bæta við. Dean Mouhtaropoulos/Getty Images

Þjóðverjar eru á leið í 8-liða úrslit á Evrópumótinu í heimalandinu eftir 2-0 sigur gegn Danmörku í leik sem tafðist lengi vegna veðurs. Þar munu þeir mæta Spáni eða Georgíu. 

Þjóðverjar komu boltanum í netið strax á 4. mínútu þegar Nico Schlotterbeck stangaði boltann í netið en myndbandsdómarar leiksins sáu brot í aðdragandum og gerðu markið ógilt.

Þegar 35 mínútur voru liðnar var gert hlé á leiknum vegna ofsaveðurs. Þrumur og eldingar, haglél og úrkyngisrigning. Þakið á leikvanginum hríðlak og áhorfendur reyndu að skýla sér. Leikmenn fóru inn til búningsherbergja og sneru ekki aftur fyrr en tuttugu mínútum síðar.

Danir komu betur út úr búningsherbergjunum og ógnuðu marki gestgjafanna. Rasmus Höjlund fékk hættulegasta færi fyrri hálfleiksins rétt áður en hann var flautaður af. Rétt náði í boltann á undan markmanninum og reyndi að vippa yfir hann en mistókst.

Hálfleikstölur 0-0 eftir furðulegan fyrri hálfleik.

Líkt og Þjóðverjar gerðu í fyrri hálfleik tókst Danmörku að koma boltanum í netið eftir hornspyrnu í upphafi seinni hálfleiks. Markið var tekið af vegna hárfínnar rangstöðu í aðdragandanum.

Skömmu síðar var dæmd vítaspyrna eftir að boltinn strauk fingurnögl danska varnarmannsins Joachim Andersen. Kai Havertz steig á punktinn, skoraði af miklu öryggi og kom Þýskalandi 1-0 yfir.

Havertz komst svo í frábært færi á 59. mínútu, tók boltann með sér í hlaupinu og gabbaði varnarmann, vippaði boltanum yfir markmanninn en rétt framhjá stönginni.

Þýskaland var algjörlega við völd þegar þar var að komið og Jamal Musiala tvöfaldaði forystu þeirra á 68. mínútu eftir stoðsendingu frá Nico Schlotterbeck. Vel gert hjá Musiala, kom sér á hægri fótinn og fann skotvinkil, smellhitti boltann og hann söng í netinu.

Musiala með laglega afgreiðslu í öðru markinu.Image Photo Agency/Getty Images

Florian Wirtz kom boltanum einu sinni enn í netið, en líkt og tvívegis áður var markið dæmt af.

Þjóðverjar óðu í færum en bættu ekki öðru marki við, lokaniðurstaða 2-0. Danmörk á heimleið og Þýskaland mætir Spáni eða Georgíu í 8-liða úrslitum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira