Upp­gjör og við­töl: Víkingur - Stjarnan 3-2 | Svaka­legur viðsnúningur í Víkinni

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Mynd úr fyrri leik liðanna á leiktíðinni þar sem Sigdís Eva sést skjóta að marki. 
Mynd úr fyrri leik liðanna á leiktíðinni þar sem Sigdís Eva sést skjóta að marki.  Vísir/Diego

Víkingur vann endurkomusigur á heimavelli í kvöld gegn Stjörnunni, 3-2, eftir að hafa lent í tvígang undir í leiknum.

Víkingar hófu leikinn betur, en gestirnir skoruðu þó fyrsta markið. Á 18. mínútu fékk Stjarnan horn sem Gyða Kristín Gunnarsdóttir tók. Eftir skallabaráttu í teignum lá boltinn dauður í miðjum teignum. Þar var Hulda Hrund Arnarsdóttir fyrst á boltann og náði skoti á markið í gegnum þvöguna fyrir framan markið, 0-1.

Næstu mínútur héldu heimakonur boltanum vel og reyndu að finna smugur á vörn Stjörnunnar. Tókst það loks á 41. mínútu. Eftir misheppnaða hornspyrnu hjá Bergdísi Sveinsdóttur fékk hún boltann aftur úti á kanti og kom honum fyrir. Þar kom Hafdís Bára Höskuldsdóttir aðvífandi og skoraði glæsimark með hælnum af stuttu færi.

Stjörnukonur svöruðu þó fyrir sig strax, en aðeins nokkrum sekúndum eftir að þær tóku miðju lá boltinn í neti Víkings. Esther Rós Arnarsdóttir skoraði þá með langskoti af um rúmlega 30 metrum og sveif boltinn í boga yfir Birtu Guðlaugsdóttur í markinu og endaði hann upp í hægra horninu. Annað glæsilegt mark og Stjarnan aftur komin yfir og þannig var staðan í hálfleik, 1-2.

Víkingar byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og sóttu látlaust. Það skilaði sér loks á 65. mínútu þegar Shaina Faiena Ashouri skoraði, en hún og Hafdís Bára Höskuldsdóttir sluppu saman einar í gegnum vörn Stjörnunnar sem endaði með því að Shaina skoraði auðveldlega í autt mark Stjörnunnar.

Víkingar voru ekki lengi að koma sér í forystu, en aðeins tveimur mínútum eftir annað mark þeirra skoraði Selma Dögg Björgvinsdóttir, fyrirliði Víkings, eftir að Stjörnukonum mistókst að koma boltanum frá.

Stjarnan reyndi að jafna leikinn en Víkingsliðið var einfaldlega betra á lokakaflanum og lokaði á alla sóknartilburði Garðbæinga. Lokatölur, líkt og fyrr segir, 3-2.

Atvik leiksins

Annað mark Víkings. Stjarnan átti aukaspyrnu út á miðjum velli og sendi sína bestu skallamenn inn í teig. Víkingar unnu fyrsta boltann og komu boltanum í kjölfarið upp völlinn þar sem tveir Víkings leikmenn voru skyndilega komnir einir í gegn og jöfnuðu leikinn. Afar klaufalegt hjá gestunum og Víkingi tókst í kjölfarið að láta kné fylgja kviði og skora sigurmarkið stuttu síðar.

Stjörnur og skúrkar

Selma Dögg, fyrirliði Víkinga, var mjög góð í dag. Afar vinnusöm á miðjunni og skilaði sér vel í teig Stjörnunnar sem endaði með því að hún skoraði sigurmarkið.

Ætla ekki beint að tala um skúrk í þessum leik, en Stjarnan fékk á sig þrjú mörk í dag og hefur því fengið á sig 27 mörk í deildinni í sumar í tíu leikjum. Það er lang mest allra liða, en botnlið Fylkis hefur fengið 23 mörk á sig. Stjarnan verður að leysa þetta vandamál ef liðið ætlar ekki að sogast niður í fallsæti.

Dómarar

Aðalbjörn Heiðar Þorsteinsson dæmdi þennan leik af kostgæfni. Fagleg frammistaða þar sem dómarateymið hafði góð tök á öllu því sem gekk á.

Stemning og umgjörð

Ekki mjög fjölmennt í því frábæra veðri sem var í Víkinni í dag. Áhugavert var að Bandaríski fáninn var dreginn að húni á einni af fjölmörgum fánastöngum sem umlykja Víkingsvöllinn.

Kristján Guðmundsson: Þetta eru gríðarleg mistök

„Við venjum okkur á það að taka frammistöðuna út úr leikjunum og svo eru úrslitin eitthvað sem fylgir með,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leik.

„Þetta var framför frá síðasta leik hvernig við vorum að vinna boltann og spila. Það var miklu meiri þéttleiki í liðinu og ákafi. Við erum enn þá í vandræðum að halda boltanum og við vorum of mikið án boltans í dag. Það er allt í lagi að vera einhverja kafla án boltans en þetta var of mikið, sérstaklega í seinni hálfleik.“

Kristján var mjög svekktur með annað markið sem hans lið fékk á sig í dag en kom það til eftir röð klaufalegra mistaka.

„Við vorum að halda þessari stöðu í 2-1 og í 1-0 erum við að halda, en við erum of lítið með boltann en við vorum að lifa það af þangað til það kom 1-1 en skorum strax frábært mark. En síðan gerum við þessi risa mistök í marki númer tvö. Þetta eru gríðarleg mistök, bæði tæknilega útfærslan á aukaspyrnunni og svo standa fyrir innan og gera hana réttstæða. Við vorum en að jafna okkur á þeim mistökum þegar að við fáum á okkur þriðja markið, þar sem náum ekki að hreinsa nógu vel frá og létum þær hafa boltann.“

Kristján gerði tvær breytingar í hálfleik á liði sínu sem var athyglisvert þar sem liðið var í góðri stöðu eftir erfiðan fyrri hálfleik. En af hverju gerði hann þessar skiptingar?

„Hugsunin var að undirbúa okkur fyrir leikinn á þriðjudaginn. Það eru þrjár hjá okkur að fara með U-17, meðal annars þessar tvær sem spiluðu fyrri hálfleikinn. Þannig að það er eiginlega hugsunin.“

Stjarnan hefur fengið flest mörk á sig í sumar í deildinni. Þegar Kristján var inntur eftir svörum hvernig hann ætlaði að fara að því að laga það, leit hann á björtu hliðarnar.

„Við erum að standa ágætlega í varnarleiknum en við bara höldum boltanum allt of lítið. Við þurfum að halda boltanum meira í leikjunum til að létta aðeins á varnarleiknum. Ég held að það sé svona skref sem við verðum að taka. Við erum farin að færa liðið og standa betur í teignum en áður,“ sagði Kristján að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira