Upp­gjör: Breiðablik-Drita 1-2 | Ísak Snær minnkaði fjallið tölu­vert með marki sínu

Hjörvar Ólafsson skrifar
Andri Rafn Yeoman skallar boltann
Andri Rafn Yeoman skallar boltann Vísir/Ernir

Blikar eru í nokkuð snúinni stöðu eftir fyrri leik sinn við Drita frá Kósóvó í annarri umferð í forkeppni Sambandsdeildar karla í fótbolta sem fram fór á Kópavogsvelli í kvöld.

Drita fór með 2-1 sigur af hólmi en gestirnir voru tveimur mörkum yfir í hálfleik en Ísak Snær Þorvaldsson lagaði stöðuna í þeim seinni og jók vonarneistann í hjörtum Blika.

Það var strax á þriðju mínútu leiksins sem Arb Manaj kom gestunum yfir. Manaj er nautsterkur og náði að snúa á varnarmenn Blika og skoraði með skoti af stuttu færi. Um miðbik fyrri hálfleiks tvöfaldaði svo Veton Tusha forystu Drita. Tusha fékk þá stungusendingu upp vinstri vænginn, náði að halda Andra Rafni Yeoman fyrir aftan sig og renndi boltanum framhjá Antoni Ara Einarssyni.

Blikar voru meira með boltann í fyrri hálfleik án þess að skapa sér mörg opin færi. Ísak Snær Þorvaldsson átti góðan skalla undir lok fyrri hálfleiks sem Faton Maloku, markvörður Drita, varði vel.

Leikmenn Breiðabliks hófu seinni hálfleikinn af miklum krafti og Aron Bjarnason og Ísak Snær Þorvaldsson fengu góð færi í upphafi seinni hálfleiks án þess þó að ná að minnka muninn.

Höskuldur Gunnlaugsson og Kristinn Steindórsson komust svo í fín skotfæri skömmu síðarn en inn vildi boltinn ekki.

Stíflan brast svo loksins þegar um það bil 20 mínútur voru eftir af leiknum. Höskuldur renndi þá boltanum í gegn á Ísak Snæ sem kláraði færið af stakri pýði með föstu skoti.

Benjamin Stokke var svo nálægt því að jafna metin en hnitmiðað skot hans var varið. Þá átti Höskuldur gott skot úr aukaspyrnu sem markvörðurinn varði í uppbótartíma. Davíð Ingvarsson, sem spilaði sinn fyrsta leik síðan hann gekk til liðs við Blika á nýjan leik, átti svo lokaorðið en hann skallaði boltann í stöngina á lokaandartökum leiksins og 2-1 tap niðurstaðan.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira