Fótbolti

Kólumbía vann opnunarleikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kólumbía bar sigurorð af Bandaríkjunum með tveimur mörkum gegn engu í opnunarleik Copa América 2016 í nótt. Leikið var í Santa Clara í Kaliforníu.

Kólumbíumenn voru sterkari aðilinn í leiknum og sigurinn var sanngjarn.

Þeir náðu forystunni strax á 8. mínútu þegar miðvörðurinn Christian Zapata skoraði með góðu skoti eftir vel útfærða hornspyrnu.

Staðan var 1-0 fram á 42. mínútu þegar Kólumbíumenn fengu víti eftir að DeAndre Yedlin handlék boltann innan teigs. James Rodríguez fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Fleiri urðu mörkin ekki en Bandaríkjamenn ógnuðu sjaldan í leiknum. Clint Dempsey komst nálægt því að skora þegar David Ospina varði aukaspyrnu hans í seinni hálfleik. Carlos Bacca fékk svo dauðafæri til að skora þriðja mark Kólumbíu undir lok leiksins en skaut í slána.

Góður sigur Kólumbíu staðreynd en lærisveinar Jürgens Klinsmann eru strax komnir í erfið mál í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×