Enski boltinn

Terry: Vítaspyrnan verður í huga mér alla ævi

AFP

John Terry, fyrirliði Chelsea, hefur nú loksins tjáð sig opinberlega um vítaspyrnun sem hann misnotaði í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í vikunni. Terry gat þá tryggt Chelsea Evrópubikarinn, en rann í skrefinu og skaut í stöng.

Terry var gjörsamlega niðurbrotinn eftir vítakeppnina þar sem Manchester United vann sigur í bráðabana.

Leikurinn var framlengdur og eftir það varð að grípa til vítakeppni. Terry gat tryggt Chelsea sigur með fimmtu spyrnu liðsins eftir að Cristiano Ronaldo misnotaði sína spyrnu fyrir United. 

Terry hefur nú tjáð sig í fyrsta sinn og ritar opið bréf til stuðningsmanna Chelsea á heimasíðu félagsins.

"Mér þykir fyrir því að hafa misnotað spyrnuna sem hefði geta fært okkur sigur í Meistaradeildinni. Mér hefur verið sagt að kenna sjálfum mér ekki um það, en ég er nú bara svona. Ég hef lítið sofið síðan og hugsa um þetta hverja mínútu," sagði Terry.

Hann segist ekki ætla að láta Moskvu-martröðina buga sig.

"Ég er nógu mikill maður til að viðurkenna að ég brást, en ég vil þó þakka þeim sem hafa reynt að hughreysta mig síðan. Ég skammast mín ekki fyrir að gráta, en ég veit að þetta kvöld á eftir að sækja að mér alla mína ævi. Ég er þó viss um að ég mun vinna þennan titil bæði sem leikmaður og síðan sem þjálfari," sagði Terry og sagði Chelsea strax vera farið að horfa til Rómar, en þar verður úrslitaleikur keppninnar á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×