Innlent

Lögregla stöðvar enn eina kannabisræktunina

Lögreglan stöðvaði kannabisræktun í húsi í Mosfellsbæ í gær. Við húsleit á áðurnefndum stað fundust um 50 kannabisplöntur á ýmsum stigum ræktunar. Jafnframt var lagt hald á búnað sem tengdist starfseminni sem og fjármuni sem grunur leikur á að séu tilkomnir vegna fíkniefnasölu.

Lögreglan hefur undanfarið stöðvað kannabisræktun víða á höfuðborgarsvæðinu. Þann 9.janúar stöðvaði lögreglan álíka ræktun í fjölbýlishúsi í Grafarholti. Við húsleit þar fundust um 70 kannabisplöntur, þar af margar á lokastigi ræktunar. Jafnframt var lagt hald á ýmsan búnað sem tengdist starfseminni. Kona á fertugsaldri var í kjölfarið handtekin en hún hefur áður komið við sögu lögreglunnar.

Þá þefaði lögreglan upp kannabisræktun í bílskúr í Breiðholti í byrjun árs. Einn maður var handtekinn vegna málsins og játaði að eiga umræddar plöntur og búnað. Lögreglan var í hávaðaútkalli í grendinni þegar hún fann megna kannabislykt. Við nánari skoðun fann hún um 100 plöntur og búnað til ræktunar.

Í byrjun desember handtók lögreglan síðan karlmann um fertugt í tengslum við fund á um 20 kannabisplöntum á ýmsum stigum ræktunar.

Þá ber einnig að geta að lögreglan á Selfossi handtók 16 manns í gær og framkvæmdi húsleitir á sex stöðum á Selfossi, Hveragerði og í Grímsnesi. Rannsókn lögreglunnar beinist að fíkniefnamálum, þjófnuðum og innbrotum, meðal annars í gróðurhús í Árnessýslu þar sem gróðurhúsalömpum hefur verið stolið til kannabisræktunar.

Þessi góði árangur lögreglunnar er liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál.

Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×