Fótbolti

Teitur og félagar spila fyrri úrslitaleik sinn í nótt

Ómar Þorgeirsson skrifar
Teitur Þórðarson.
Teitur Þórðarson. Mynd/Vancouver Whitecaps

Skagamaðurinn Teitur Þórðarson er búinn að stýra Vancouver Whitecaps í úrslit Norður amerísku USL-deildarinnar annað árið í röð en liðið varð sem kunnugt er meistari undir hans stjórn á hans fyrsta tímabili með liðið í fyrra.

Whitecaps mætir Montreal Impact í úrslitunum en þetta er í fyrsta skipti sem tvö kanadísk lið mætast í úrslitum Norður amerísku USL-deildarinnar síðan hún var stofnuð. Ólíkt því sem var á síðasta tímabili þá verða nú spilaðir tveir úrslitaleikir og samanlagt skor úr leikjunum tveimur sker úr um sigurvegarann. Fyrri leikur liðanna fer fram á heimavelli Whitecaps í nótt en síðari leikurinn fer svo fram á heimavelli Impact eftir viku.

„Það er auðvitað sérstakt að tvo kanadísk lið séu að mætast í úrslitunum og það eru margir leikmenn sem hafa spilað með báðum þessum liðum. Það breytir samt engu þegar inn á völlinn er komið og ég nálgast þennan leik eins og alla aðra mikilvæga leiki, með því að reyna að undirbúa lið mitt eins vel og ég get.

Það er líka óneitanlega sérstakt að spila tvo úrslitaleiki en við þurfum bara að nálgast þessa leiki eins og aðra leiki okkar í úrslitakeppninni til þessa," segir Teitur Þórðarson í viðtali við kanadíska fjölmiðla en Whitecaps hefur unnið tvo leiki og gert tvö jafntefli til þessa í úrslitakeppninni en Impact er búið að vinna alla fjóra leiki sína.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×