Innlent

Níu mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness.
Karlmaður frá Suðurnesjum var dæmdur í níu mánaða óskilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í dag fyrir kynferðisbrot gegn sextán ára dreng. Þá er hann dæmdur fyrir að gefa honum og öðrum sextán ára dreng, áfengi, en slíkt er ólöglegt samkvæmt áfengis- og barnaverndarlögum.

Pilturinn, sem varð fyrir kynferðisofbeldinu í nóvember á síðasta ári, vaknaði við aðfarir mannsins á heimili hans.

Maðurinn sagði fyrir dómi að hann hefði í fyrstu talið að pilturinn væri kona, en sjálfur sagðist hann vera fráskilinn tveggja barna faðir. Maðurinn starfaði sem stýrimaður á dönsku flutningaskipi.

Við ákvörðun refsingar leit dómari héraðsdóms til þess að maðurinn játaði sakargiftir að mestu leyti allt frá upphafi rannsóknar. Hann gaf greinargóða skýrslu um málið bæði hjá lögreglu og hér fyrir dómi og sýndi samvinnu við rannsókn málsins.

Á hinn bóginn er litið til þess að maðurinn gaf drengnum ótæpilega mikið af áfengi. Þá trúði fórnarlambið manninum fyrir tilfinningum sínum, hversu illa sér leið, og erfiðleika sem hann hafði gengið í gegnum í lífi sínu.

Niðurstaðan var því 9 mánaða óskilorðsbundið fangelsi. Þá er manninum gert að greiða drengnum 500 þúsund í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×