Erlent

Noregskonungur klökknaði við minningarathöfn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Haraldur Noregskonungur ásamt Sonju eiginkonu sinni. Mynd/ AFP.
Haraldur Noregskonungur ásamt Sonju eiginkonu sinni. Mynd/ AFP.
Haraldur Noregskonungur var klökkur þegar hann talaði á minningarathöfn í Osló um þá sem fórust í Útey þann 22. júlí síðastliðinn. Athöfnin fer fram í dag og eru um sex þúsund manns viðstaddir. Þeirra á meðal eru þjóðarleiðtogar allra Norðurlandanna, eftir því sem Jyllands Posten greindi frá.

„Nú hafa næstum öll orð verið sögð. Það hefur svo margt verið sagt og svo mikið grátið," sagði Haraldur konungur í ræðu sinni. „Í sorginni hef ég jafnframt þörf fyrir að þakka. Þakka þeim, sem ákváðu að gefast ekki upp. Og ég vil líka þakka þeim sem aðstoðuðu," sagði Haraldur. Hann þakkaði lögreglunni, forsætisráðherranum, hjálparsamtökum og þeim einstaklingum sem hjálpuðu ungmennunum í Útey.

Haraldur konungur var sá fyrsti sem hélt ræðu en það mun Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, einnig gera. Á meðal þeirra sem eru við minningarathöfnina eru Viktoría krónprinsessa Svía og Friðrik krónprins Danmerkur. Fredrik Reinfeld, forsætisráðherra Svía og Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur eru einnig viðstaddir. Þá er Tarja Halonen, forseti Finnlands, og Jyrki Katainen forsætisráðherra einnig viðstaddir. Frá Íslandi eru svo Ólafur Ragnar Grímsson forseti og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×