Erlent

Tígur í ástarflækju drepinn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Malasíutígrar eru í bráðri útrýmingarhættu. Mynd/ AFP.
Malasíutígrar eru í bráðri útrýmingarhættu. Mynd/ AFP.
Kvenkyns tígrisdýr drap vin sinn í dýragarði í Texas í gær. Afbrýðissemi, sem svokallaður ástarþríhyrningur leiddi af sér, er kennt um að sögn Reuters. Það var þriggja ára malasíutígur sem heitir Seri sem drap sex ára gamlan tígur, sem kallaður var Wzui, um klukkan fjögurleytið í gær að staðartíma í El Paso dýragarðinum.

Um leið og atvikið uppgötvaðist var áhorfendum beint frá tígrisdýragryfjunni og dýralæknar voru kallaðir til. Þeir rannsökuðu Wzui og komust að því að hann var dauður. „Sorglegir atburðir á borð við þennan eru ekki óþekktir en við teljum þá alls ekki algenga," sagði Steve Marshall, forstjóri dýragarðsins. Hann sagði að hinn dauði tígur hefði verið mjög jarðbundinn og ástríkur. Hans yrði sárt saknað. Malasíutígrar eru í bráðri útrýmingarhættu og eru einungis um 500 einstaklingar til í villtri náttúrunni í Malasíu og í Tælandi.

Marshall sagði að starfsmenn dýragarðsins hefðu ekki orðið varir við neina árásarhneigð í tígrisdýragryfjunni áður en árásin átti sér stað. Í júní síðastliðnum tilkynnti dýragarðurinn hins vegar um ástarþríhyrnings milli Seri, Wzui og 15 ára gamals kvenkyns tígrisdýrs sem heitir Meli. „Wzui er hrifinn af báðum kvendýrunum en kvendýrunum tveimur kemur illa saman," sögðu talsmenn dýragarðsins þá í fréttatilkynningu. „Þær eru afbrýðisamar út í hvor aðra," sagði talsmaður dýragarðsins ennfremur. Ekki er talið ólíklegt að þessi flækja hafi á endanum leitt til þess að annað kvendýrið drap karlinn.

Starfsfólk dýragarðsins býst við því að annað karldýr verði flutt í garðinn til þess að malasíutigrarnir þar geti fjölgað sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×