Erlent

Gætu hafa bjargað diplómatískum samskiptum Egypta og Ísraela

Frá byltingunni í Egyptalandi síðasta vetur.
Frá byltingunni í Egyptalandi síðasta vetur.
Það voru líklega Bandaríkjamenn sem vörnuðu því að milliríkjasamskipti Egyptalands og Ísraels yrðu rofin eftir að mótmælendur réðust inn í sendiráð Ísraels aðfaranótt laugardags.

Flestir starfsmenn sendiráðsins flýðu en fimm þeirra urðu innlyksa þegar æstur múgurinn ruddist inn í sendiráðið.

Fregnir af því sem næst kemur eru heldur óljósar. Erlendir fréttamiðlar greindu frá því að sérsveitarmenn hafi farið inn í sendiráðið og bjargað starfsmönnunum frá því að lenda í æstum mótmælendum.

Það var líklega það sem bjargaði því að ekki fór ver í samskiptum ríkjanna. Athygli vekur að í frétt BBC þakkar Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, Bandaríkjamönnum fyrir að hafa bjargað starfsmönnunum. Hann útskýrði ekki frekar hvað hann átti við.

Í kjölfar þess að starfsmönnunum var bjargað sagði Netanyahu í fréttaviðtölum í gær að ríkið myndi halda áfram að virða þrjátíu ára gamlan friðarsáttmála á milli ríkjanna.

Hillary Clinton virðist hafa miðlað málum á milli ríkjanna í gær sem varð til þess að ekki fór verr í samskiptum þeirra. Reiði mótmælenda beindist meðal annars að því að fimm egypskir lögreglumenn voru drepnir af ísraelskum hermönnum í ágúst.

Netanyahu tilkynnti í sjónvarpsávarpi í gær að ríkið ynni að því ásamt stjórnvöldum í Egyptalandi að opna sendiráðið á ný.

Hátt í fimmhundruð manns slösuðust í mótmælunum og minnsta kosti þrír létust.

Eins og kunnugt er á Ísrael ekki í neinum diplómatískum samskiptum við önnur nágrannaríki í Mið-Austurlöndum en Egyptaland og Jórdaníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×