Erlent

Símahleranir - Murdoch-feðgar í vandræðalegri stöðu

James Murdoch er meðal valdamestu fjölmiðlamanna heims. Nú vex þrýstingur á hann að segja af sér.
James Murdoch er meðal valdamestu fjölmiðlamanna heims. Nú vex þrýstingur á hann að segja af sér.
Feðgarnir og fjölmiðlabarónarnir James og Rupert Murdoch standa nú í meiriháttar veseni. Ný gögn benda til þess að þeira hafi vitað að starfsmenn þeirra notuðu símahleranir við fréttaframleiðslu. Hjá Ofcom, sem er nokkurs konar útvarpsréttarnefnd Bretlands, stendur yfir rannsókn á því hvort þeir séu enn hæfir til að reka fjölmiðil. Þá vex einnig þrýstingur á James að segja af sér sem stjórnarformaður SKY. Þingmaðurinn Tom Watson kallaði málið „stærstu yfirhylmingu sem hann hefði séð á ævinni".

 

Kveikjan að þessu umstangi er bréf sem birtist fyrst opinberlega í dag. Bréfið var skrifað af Clive Goodman, fyrrum blaðamanni News of the World sem fyrir fjórum árum var handtekinn fyrir símahleranir, meðal annars hjá bresku konungsfjölskyldunni. Símahleranirnar notaði hann við fréttaframleiðslu og hlaut einn refsingu fyrir þær. Í bréfinu kemur fram að ritstjórar blaðsins hafi vitað af símahlerununum og þær hafi verið ítarlega ræddar á starfsmannafundum blaðsins. Í bréfinu segir einnig að Clive Goodman hafi fengið loforð um að halda starfi sínu ef hann nefndi ekki undir vitnaleiðslum að fleiri á blaðinu hafi verið viðriðnir hleranirnar.

 

Fram hefur komið að blaðið greiddi Clive Goodman fyrir málaferlin full árslaun, lögfræðikostnað og væna uppbót, samanlagt að andvirði rúmra 45 milljóna króna. Það er talsvert hærri upphæð en áður hefur verið haldið fram. Þingmaðurinn Tom Watson lét hafa eftir sér að þetta væri tilraun til að kaupa þögn Goodman. Því hafa talsmenn Murdoch-feðga hafnað.

 

Murdoch-feðga bíður því erfitt tímabil við að hreinsa æru sína og koma í veg fyrir að þeir missi fjölmiðlaréttindin. Þeir eru eigendur eins stærsta fjölmiðlaveldis heims og hafa verið taldir meðal 100 valdamestu manna heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×