Erlent

Fundu rústir skylmingaþrælaskóla

Mynd af því hvernig skólinn hefur líklega litið út, samkvæmt mati fornleifafræðinga. fréttablaðið/ap
Mynd af því hvernig skólinn hefur líklega litið út, samkvæmt mati fornleifafræðinga. fréttablaðið/ap
Mjög vel varðveittar rústir af skóla fyrir skylmingaþræla hafa fundist í Austurríki. Rústirnar eru hluti af 50 þúsund manna borg austur af Vín, sem var í blóma þar fyrir 1.700 árum. Borgin var mikilvæg hernaðar- og viðskiptaborg fyrir Rómverja.

Skólinn er sagður líkjast Ludus Magnus, stærsta skylmingaþrælaskólanum sem var í Róm. Skólinn er þó betur varðveittur en sá í Róm, en hann er enn neðanjarðar. Fundurinn er einstakur og heimsviðburður, segja yfirmenn í Carnuntum-fornleifagarðinum, þar sem skólinn er.

Hundruð þúsunda ferðamanna koma á hverju ári í garðinn til að skoða fornminjar. Uppgröftur hófst þar árið 1870 en aðeins lítill hluti borgarinnar hefur verið grafinn upp. Ekki hefur verið ákveðið hvenær reynt verður að hefja uppgröft á skólanum.

Þykkir veggir umlykja ellefu þúsund fermetra stóra jörð þar sem skólinn og aðrar byggingar voru. Þar voru vistarverur þrælanna, æfingasvæði og lítið keppnissvæði með áhorfendapöllum. Þá þykir líklegt að fyrir utan veggina hafi verið grafreitur fyrir þá þræla sem létust við æfingar. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×