Erlent

Náttúran fær sömu réttindi og mannfólkið

Ein af greinum nýju laganna snýst um að náttúran hafi sama rétt á hreinu vatni og lofti og mannfólkið. nordicphotos/getty
Ein af greinum nýju laganna snýst um að náttúran hafi sama rétt á hreinu vatni og lofti og mannfólkið. nordicphotos/getty
Yfirvöld í Bólivíu hafa lagt fram lagafrumvarp sem mun veita náttúrunni sömu réttindi og manneskju. Lögin bera heitið „Lögmál Móður jarðar“ og er þetta í fyrsta sinn sem svo róttækar breytingar eru lagðar fram í heiminum er varða náttúruvernd. Þetta kemur fram á vef Guardian.

Ríkar steinefnanámur landsins eru nú skilgreindar sem „blessun“ og er það meðal annars talið munu leiða til róttækra breytinga í friðun landsins og samfélagslegri ábyrgð til að draga úr mengun.

Lögin eru í ellefu þáttum og varða þeir allir réttindi náttúrunnar til að vera til. Meðal þeirra eru réttindi hennar til lífs, réttindi hennar til tilveru án afskipta manna, aðgang að hreinu vatni og hreinu lofti, rétt til að vera ekki menguð og verða ekki genabreytt af mannfólkinu.

Eitt umdeildasta atriðið er talið réttur náttúrunnar til að verða ekki fyrir áhrifum af stórum mannvirkjum og þróunarframkvæmdum sem gætu raskað jafnvægi lífríkis eða velferð íbúa.

Lögmál móður jarðar eru hluti af heildarendurskilgreiningu á bólivíska lagakerfinu sem kom í kjölfar breytinga á stjórnarskrá landsins árið 2009. Þau eru undir miklum áhrifum af andlegum heimssjónarmiðum frumbyggja Andesfjalla sem líta á náttúruna og jörðina sem miðpunkt alls lífs. - sv


Tengdar fréttir

Átök hafa harðnað á ný í Líbíu

Stuðningsmenn Múammars Gaddafí skutu í gær flugskeytum frá borginni Bani Walid að hersveitum uppreisnarmanna, sem hafa dögum saman hótað því að ráðast á borgina. Uppreisnarherinn, sem hefur að mestu náð völdum í landinu, hafði gefið stuðningsmönnum fyrri stjórnar frest til dagsins í dag til að gefast upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×