Erlent

Þróaði nýjan lygamæli

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Nýr lygamælir hefur verið þróaður.
Nýr lygamælir hefur verið þróaður. Mynd/ AFP.
Með nýju háþróuðu myndavélakerfi er hægt að greina hvenær fólk er að segja ósatt með því einu að taka andlitsmyndir af viðkomandi. Nýja kerfið styðst við einfalda myndavél, háþróaðan hitaskynjara og talnarunur. Þeir sem standa að þróun kerfisins segja að það geti orðið bylting í öryggismálum.

Hassan Ugail, prófessor við Bradfordháskólann, segir að kerfið geti í 2/3 hluta tilfella greint réttilega í sundur hvenær menn eru að segja satt og hvenær þeir eru að ljúga. Nýja kerfið var kynnt í dag.

Á fréttavef BBC segir að nýja kerfið byggi á áralöngum rannsóknum á því hvernig við ómeðvitað og óviljandi sýnum tilfinningar okkar á lítt áberandi hátt. Þetta gerist með breyttu blóðflæði, útvíkkuðum augasteinum, með því að þrýsta vörunum saman og fleira af því tagi. Nýja kerfið skynji vel breytt blóðflæði.

Hefðbundnir lygamælar byggja á tækni sem var upphaflega þróuð árið 1921 og hefur lítið breyst síðan þá. Hún er mun meira íþyngjandi fyrir þann sem er mældur en nýja mælitækið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×