Menning

Fellihýsamenningin kveikti hugmyndina að þáttunum

Hafsteinn Gunnar Sigurðsson og Huldar Breiðfjörð vinna að nýrri sjónvarpsþáttaröð.
Hafsteinn Gunnar Sigurðsson og Huldar Breiðfjörð vinna að nýrri sjónvarpsþáttaröð. Fréttablaðið/Stefán
„Þetta fjallar svolítið um þetta helvíti þegar fjölskyldur sem dagsdaglega eyða kannski litlum tíma saman eru settar í þær aðstæður að þurfa að eyða tíma saman og takast hvert á við annað,“ segir Hafsteinn Gunnar Sigurðsson.

Hann hefur verið ráðinn til að leikstýra sinni fyrstu sjónvarpsþáttaröð, Helvítis Ísland, eftir handriti Huldars Breiðfjörð.

Þáttaröðin verður framleidd af Sagafilm og eru samningaviðræður í gangi um að Sjónvarpið sýni hana. Um er að ræða mannlega dramatíska kómedíu um fjölskyldu sem ferðast um landið að undirlagi fjölskylduföðurins í von um að bjarga hjónabandinu.

Huldar segist hafa fengið hugmyndina eftir að hafa á ferðalögum sínum um landið fylgst með hjólahýsa- og fellihýsamenningunni sem hefur verið að skapast hérlendis. „Það fór að rifjast upp fyrir mér hvers konar álag getur orðið þegar maður þarf að sitja í bíl og tilheyra fjölskyldu í jafnþröngu rými og láta allt virka.“ Enn á eftir að ráða leikara í þættina en tökur eru áætlaðar næsta sumar.

Hafsteinn Gunnar sló í gegn með sinni fyrstu mynd, Á annan veg, sem kom út í fyrra og fjallaði um tvo vegagerðarmenn uppi á hálendi. Bandaríska kvikmyndabiblían Variety hrósaði myndinni og sagði Hafstein hæfileikamann sem kvikmyndaáhugafólk ætti að fylgjast vel með í framtíðinni.

Hafsteinn og Huldar kynntust er þeir voru báðir í kvikmyndanámi í New York. Þeir eru einnig með kvikmynd í bígerð sem heitir Kalt vor og verður tekin upp á næsta ári eftir að tökum á Helvítis Íslandi lýkur.

„Það er einnig dramatísk kómedía sem fjallar um samband feðga og gerist í litlu þorpi á Vestfjörðum. Það er voða fínt að vinna með Huldari. Við erum góðir vinir og svo deilum við svipaðri sýn á hlutina. Hann er frábær höfundur og okkur langar að gera fleiri verkefni saman,“ segir Hafsteinn og Huldar bætir við: „Þetta er í fyrsta skipti sem ég skrifa sjónvarpsseríu. Okkur langaði að prófa þetta og það hefur verið ansi gaman að vinna inni í því.“

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×