Körfubolti

Króatar í undanúrslitin í fyrsta sinn í átján ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Króatar fagna hér sigri.
Króatar fagna hér sigri. Mynd/AFP
Króatar tryggðu sér sæti í undanúrslitum á EM í körfubolta i Slóveníu eftir tólf stiga sigur á Úkraínu, 84-72, í leik þjóðanna í átta liða úrslitum í kvöld. Sigur Króata var öruggur.  Móherjar Króatíu í undanúrslitunum verða annaðhvort Litháen eða Ítalía.

Króatía hafði ekki komist í hóp fjögurra bestu liðanna á Evrópumótinu síðan á EM í Grikklandi 1995 en þá spiluðu með króatíska landsliðinu þeir Toni Kukoc og Dino Rada. Þetta er líka mikil bæting frá því að síðasta Evrópumóti þegar Króatar enduðu í 13. sæti.

Krunoslav Simon var sjóðandi heitur, skoraði 23 stig og hitti úr 5 af 8 þriggja stiga skotum sínum. Bojan Bogdanovic skoraði 14 stig og miðherjinn Damir Markota var með 12 stig. Eugene Jeter vart atkvæðamestur hjá Úkraínu með 19 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar.

Fyrsti leikhlutinn var hnífjafn og staðan var jöfn, 22-22, eftir fyrstu tíu mínútur leiksins. Króatar settu þá í fimmta gír og stungu hreinlega af í öðrum leikhluta sem þeir unnu 29-13 og voru í framhaldinu 51-35 yfir í hálfleik.

Krunoslav Simon skoraði þrettán stig fyrir Króatíu í fyrri hálfleiknum og byrjaði síðan seinni hálfleikinn á því að skella niður þriggja stiga körfu og koma Króötum 19 stigum yfir.

Úkraínumenn náðu að minnka muninn í níu stig fyrir lokaleikhlutann, 70-61, en Króatar voru sterkari og tryggðu sér sæti í undanúrslitunum.

Króatar mæta annaðhvort Litháen eða Ítalíu í undanúrslitunum á morgun en þau mætast í síðasta leik átta liða úrslitanna seinna í kvöld. Frakkland og Spánn mætast í hinum undanúrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×