Enski boltinn

Pistill: Gylfi og Chicharito

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Virku varamennirnir Chicharito og Gylfi Þór Sigurðsson.
Virku varamennirnir Chicharito og Gylfi Þór Sigurðsson. Nordicphotos/Getty
„Gylfi hefði ekki átt að velja peninga fram yfir spilatíma," er fullyrðing sem ég hef heyrt frá knattspyrnuáhugamönnum undanfarnar vikur og mánuði. Svo virðist sem fjölmargir séu á því að Gylfi Þór Sigurðsson sé í frystikistunni hjá Andre Villas-Boas, knattspyrnustjóra Tottenham. Hefði Gylfi gengið í raðir Liverpool, eins og honum stóð til boða í ágúst, væri allt annað uppi á teningnum.

Gylfi hefur „aðeins" verið í byrjunarliði Tottenham sex sinnum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Í einum þeirra hefur hann fengið að spila leikinn frá upphafi til enda en í hinum hefur honum verið skipt af velli. Hann er í 16. sæti yfir mínútur spilaðar hjá Spurs. Algjör varaskeifa, eða hvað?

Gylfi hefur komið við sögu í 22 af 25 leikjum Spurs á tímabilinu, öllum nema þremur. Aðeins Aaron Lennon, Jermaine Defoe og Kyle Walker hafa komið við sögu í fleiri leikjum Lundúnarliðsins. Hægt er að skoða tölfræði frá ýmsum sjónarhornum.

Javier „Chicharito" Hernandez, leikmaður Manchester United, hefur spilað færri mínútur en Gylfi, sömuleiðis liðsfélagi hans Anderson og velskur miðjumaður, áður kantmaður, að nafni Ryan Giggs. Ensku landsliðsmennirnir (flettið því upp) og liðsfélagar Gylfa, Tom Huddlestone og Jake Livermore, hafa spilað minna en Hafnfirðingurinn svo ekki sé minnst á Jermaine Jenas og Andros Townsend sem búið er að lána til QPR. Þá má nefna Iago Falqué og Danny Rose sem önnur lið njóta góðs af sem stendur. Þessi gæjar eru ekki í myndinni hjá Villas-Boas.

Portúgalinn hafði ekki frumkvæðið að því að kaupa Gylfa en sló ekki hendinni á móti því að fá hann í raðir félagsins. Gylfi á ekki fast sæti í byrjunarliði Spurs, það er óumdeilt, en hins vegar kemur hann undantekningalítið við sögu. Virðist einnig sem Villas-Boas leiti til hans þegar Spurs er í leit að marki - breyta einu stigi í þrjú. Svo var tilfellið sem dæmi í jafnteflisleikjum gegn Stoke og Norwich en í báðum leikjum var Gylfi hársbreidd frá því að tryggja Spurs stigin þrjú.

Gylfi í bikarleik með Spurs.Nordicphotos/AFP
Á meðan Gylfi hefur ekki nýtt sambærileg færi við þau sem hann skoraði úr hjá Swansea í fyrra hefur Clint Dempsey reimað á sig markaskóna. Fimm mörk gegn engu marki Gylfa komu Bandaríkjamanninum framar í goggunarröðinni. Samt er frammistaða Dempsey mun lakari en hjá Fulham í fyrra. Þá einoka Gareth Bale og Aaron Lennon kantstöðurnar í 4-4-2 uppstillingu Villas-Boas sem gerir það að verkum að hlutverk Gylfa verður, að óbreyttu, áfram sem varamaður. Virkur varamaður.

Hlutverk Gylfa hlýtur reyndar að vera nokkuð mikilvægt fyrst að Spurs hafnaði boði um að selja Íslendinginn til Reading á dögunum. Tilboðið hljómaði upp á töluvert hærri upphæð (900 milljónir króna) en sú sem Spurs greiddi Hoffenheim fyrir hálfu ári. Daniel Levy, stjórnarformaður Spurs, og Villas-Boas höfnuðu hins vegar 60 prósenta ávöxtun á hálfu ári. Þætti Gylfi Þór ekki mikilvægur fyrir félagið eða kaupin misheppnuð hefðu þeir stokkið á boðið.

Ég bý ekki í helli. Allir átta sig á því að Gylfi hefur dvalið lungann úr flestum deildarleikjum Spurs á bekknum. Liði sem situr í fjórða sæti deildar sem hefur verið sú sterkasta í Evrópu undanfarin ár. Þeir sem reiknuðu með því að Hafnfirðingurinn yrði í byrjunarliði Spurs í hverri viku þurfa að láta herða skrúfurnar. Það var aldrei líklegt. Scott Sinclair til Manchester City frá Swansea og nafni hans Scott Parker til Chelsea frá Charlton. Það eru dæmi um leikmenn sem völdu peninga fram yfir spiltíma. Ekki Gylfi. Ákvörðun hans var metnaðarfull en það er langt í að hægt verði að fullyrða að hún hafi verið röng. Hæfileikar Gylfa eru óumdeildir og um leið og fyrsta aukaspyrnan syngur í netinu mun kveða við annan tón hjá gagnrýnendum hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×